Um meidd, afneitun, réttlætingu og hagsmunagæslu

1. júlí, 2014

Samkvæmt opinberum gögnum er stór hluti íslenskra hesta, sem kemur fram í keppni og sýningum á Íslandi, meiddur í lok leiks annað hvort í munni eða fótum nema hvort tveggja sé.  Þetta er staðreynd,  lesandi góður.  Sumir segja að meiddin séu svo lítil að umfangi að það sé varla hægt að kalla þau meidd og svo eru aðrir sem segja að meiddin séu alvöru meidd.  Þetta er skoðanamunur á meiddum og sjálfsagt hægt að hrekja í báðar áttir eins og virðist vera almennt um skoðanir okkar mannanna.  Ég ætla ekki að úttala mig um alvörustig meiddanna en bendi á að það er regin munur á staðreynd og skoðun.  Það er vel hægt að skipta um skoðun en tæpast þegar um ræðir staðreynd, hins vegar er oft gripið til afneitunar þegar raunveruleikinn er óþægilegur á að horfa.

Samkvæmt opinberum gögnum þá er það fagfólkið okkar, sýningarfólkið okkar, landsliðknaparnir okkar, kynbótaknaparnir okkar, fólkið okkar sem ríður í A og B úrslitum á stærstu mótunum sem ríður á hestunum sem eru sárir í munni og fótum að leik loknum.  Þetta er líka staðreynd, en ekki skoðun. Ákveðinn beislabúnaður er talinn af mörgum vera helsti orsakavaldur meiddanna a.m.k. í munni og nýleg rannsókn virðist styðja orsakasamhengið.  Nauðsynin fyrir notkun þessara méla er útskýrð  á þann hátt að einkunnir fyrir hæfileika lækki annars.  Réttlæting er af sama meiði og afneitun – vondur er raunveruleikinn bæði til áhorfs og afspurnar. 

Landsmót hestamanna er rétt hafið.  Undangengin Landsmót hafa verið mikil hátíð meidda með samþykki að því virðist allra ábyrgðar aðila.  Sá orðrómur gengur manna á milli að sum úrslitahrossin tveggja síðustu Landsmóta hafi verið greind mikið munmeidd.   Það hafi þurft að bíða með verðlaunaafhendingu í sumum greinum um nokkra stund þar til tókst að stöðva blæðingar í munni hrossa í annan stað og hins vegar að stór hluti úrslitahrossa í tölti á síðasta Landsmóti voru ótæk til keppni og sýninga vegna munnmeidda að mati eftirlitsmanna munnmeidda fyrir úrslitin.  En kepptu samt því „the show must go on“ og er annað dæmi um réttlætingu okkar hestamanna.

Verðlaunasæti í keppni eða annar bravör fyrir frammistöðu er helsti hvati fólks til að standa sig á hestbaki auk fjárhagslegs ávinnings ræktenda, þjálfara og eiganda bravör hesta.  Dómarar, dómskalar og almennt viðhorf mótar það sem talið er þess virði að verðlauna og það er kennt svo áfram og ef það virkar þá hlýtur það að vera rétt og eftirsóknarvert sama hvernig það er fengið og framkallað. Fótaburður og hraði er auðveldast fyrir flesta til að greina á milli hesta.  Mýkt, þjálni, hreinleika í gangi og vellíðan hests er erfitt fyrir margan að greina og svo er það ekki verðlaunað – „so who cares“.

Þessi meidda mynd er birtingarmynd íslenskrar hestamennsku eftir gríðarlegt átak í kennslu og fræðslu innan hestamennskunnar bæði af opinberum aðilum og einkaaðilum um mjög langt árabil.  Vantar ekki eitthvað í umræðuna eins og til dæmis hvernig viljum við sjá fulltaminn og fullþjálfaðan gæðing formaðan og riðinn á hverri gangtegund.  Og þá hverning gerum við það skref fyrir skref með velferð hestsins að leiðarljósi og það eru einmitt einkunnaorðin sem FEIF birtir á heimasíðu sinni en FEIF er titlað sem höfuðið á hestamennsku íslenska hestsins.

Þar á bæ eins og nokkrum öðrum Íslenskum bæjum s.s. Félagi hrossabænda og Félagi tamingamanna, er borið fyrir sig á víxl afneitun og réttlætingu á ástandinu og skal það nú skoðað í heild sinni með aðstoð fagfólks í kennslu, tamningu, þjálfun og keppni.  En það góða fagfólk hefur nú mótað starfið í langan tíma og hvernig getur það þá haft rangt fyrir sér. Sennilega verður engin önnur breytingin á þessari skammarlegu birtingarmynd á hestamennsku á íslenskum hestum önnur en sú að heimasíða FEIF segist hafa velferð annars hvers hests að leiðarljósi slík er hagsmunagæslan.   

Magnús Lárusson

Um meidd, afneitun, réttlætingu og hagsmunagæslu