Virkni afturparts

24. janúar, 2017

Reynt verður með þessum greinarstúf að varpa nokkru ljósi á hlut mjaðmagrindar í hreyfingu afturparts á reiðhesti.  Eins hvaða áhrif staðsetning hnakks og knapa geta haft á hreyfinguna. 

Mjaðmagrind hests er hringlaga og sést á hlið á meðfylgjandi mynd á gula strikinu. Mjaðmagrindin festist fremst við krossbeinið eins og sést á myndinni þar sem svarta strikið kemur í hestinn. Festingin er svo öflug að það er eins og um eitt bein sé að ræða.  Fasti liðurinn virkar á eftirfarandi máta: Þegar mjaðmagrind færist nær lóðréttri stöðu, lend kreppist, þá fer spjaldhryggurinn að vísa upp en hann er framhald af krossbeininu að framanverðu. Þegar mjaðmagrindin færist í átt að láréttri stöðu þá fer spjaldhryggurinn að vísa niður að framanverðu.

Skref afturfóta afmarkast af bláa strikinu að framanverðu og græna strikinu að aftanverðu eins og sést á myndinni.  Rauða strikið, sem er lóðlína frá mjaðmarlið, skiptir skrefunum í tvo hluta. Eftir því sem lendin er krepptari þeim mun stærra hlutfall skrefsins er fyrir framan rauða strikið og minna fyrir aftan. Hluti skrefsins fyrir framan rauða strikið ber þunga og þeim mun meiri þunga sem lend er krepptari. Þegar hestur réttir úr fætinum losnar orka sem spyrnir afturhluta hestsins upp á fremri hluta skrefsins en öllum hestinum áfram á aftari hluta skrefsins.  Því stærri sem aftari hluti skrefs er þeim mun meira er hestur á framhlutanum, framfætur bera þá meiri þunga.

Til að auka burð í afturparti hests þá þarf hestur að kreppa lend.  Hægt er að seinka og jafnvel koma í veg fyrir að burður í afturparti hests myndist. Það gerist gjarnan þegar lagt er aftarlega á hest eða knapi hallar sér aftur á bak i hnakknum því þá borast setbein knapa niður í bak hestsins.  Með því móti er komið í veg fyrir að hesturinn geti lyft spjaldhryggnum upp og lend geti kreppst. Hross sem skortir styrk í kviðvöðva og afturfætur eru sérlega viðkæm fyrir þunga á spjaldhrygginn.  Afleiðingin er þá sú að viðkomandi hestur heldur áfram að vera á framhlutanum sama hvernig reising hans lítur úr. Vilt þú að þinn hestur geti verið í burði að aftan og eigi möguleka að komast smám saman af framhlutanum?

Með kveðju Magnús Lárusson M.Ag.

Myndin sýnir hest á framhlutanum því fremri hlut skrefs er minni en aftri hluti skrefsins.

(myndin er teki af netinu og slóðin er: https://www.google.is/search?q=skeleton+of+a+horse&biw=1779&bih=835&tbm=isch&imgil=l5pUr32kh4g4GM:;pIkU5hX8tqASMM;https://www.pinterest.com/pin/100768110384448089/&source=iu&pf=m&fir=l5pUr32kh4g4GM:,pIkU5hX8tqASMM,_&usg=__oXUNN4hh6Z9i-MuFDdt6sNzN0rE=&ved=0ahUKEwi7r9_r3dvRAhUmJMAKHSmtCMYQyjcIPw&ei=IMiHWLufNqbIgAap2qKwDA#imgrc=L4hlbKWTSmSkEM:)

Virkni afturparts