11.11.2016 | Pistlar

Að nýta þekkingu

Ég mætti á tvo yfirgripsmikla og fróðlega fyrirlestra á þessu ári um þjálfunarlífeðlisfræði hrossa.  Dr Þorvaldur Árnason hélt þann fyrri á vegum Skeiðmannafélagsins í vor í félagsheimili Sleipnis á Selfossi.  Dr Guðrún J. Stefánsdóttir hélt þann seinni á ráðstefnunni Hrossarækt 2016 sem fór fram í Sprettshöllinni þann 5. nóvember.  Í báðum þessum fyrirlestrum koma fram að það tæki 2 til 3 sólarhringa fyrir hest að endurheimta orkubirgðir vöðvanna þegar þær hafa tæmst.  Dr Þorvaldur sagði að hestur tæmdi sig þegar hann færi á fullum afköstum tvo skeiðspretti (250 m) á sama degi. 

Dagskrá síðasta landsmóts, sem haldið var á Hólum, segir að fyrri tveir sprettir í 150 m og 250 m skeiði hafi verið kl 16.30 á fimmtudegi og þeir tveir seinni kl 17.00 á föstudegi.  Skipulagning þar sem gert er ráð fyrir að skeiðhestar fari 2 spretti (250 m) tvo daga í röð er ekki einsdæmi hérlendis.  Samkvæmt Dr Þorvaldi þá eru hestarnir að fara skeiðið seinni daginn væntanlega ekki á fullum mögulegum afköstum því orku skortir úti í vöðvunum.   Eru fleiri ókostir en minni möguleg afköst við þessa framkvæmd kappreiða? Er meiri hætta á spennu, líkamlegri og andlegri sem kemur síðar í ljós?

 

Dr Guðrún sagði að mæligildi hjartsláttar og mjólkursýru bentu til þess að hross tæmdu sínar orkubirgðir í hæfileikadómi kynbótahrossa.  Hefðbundin venja við kynbótasýningar er að hafa yfirlitssýningu strax daginn eftir að nokkurra daga fordómi er lokið.  Fordómur frá mánudegi til fimmtudags og síðan yfirlitssýning á föstudegi er gjarnan uppskriftin.  Þannig að út frá framan sögðu þá er helmingur hrossanna búin að ná upp orkuforða en hinn ekki.  Það má því ætla að skynsamlegast og sanngjarnast sé að hafa yfirlitið á mánudeginum eftir fordóma vikunnar á undan. Þá mun væntanlega fækka á yfirlitssýningum hrossum sem eru ekki nema svipur hjá sjón frá fordómi. 

Magnús Lárusson, M.Ag.

Myndin sýnir púlsmæli


Til Baka