Peter De Cosemo: Þjálfun íslenska hestsins, það sem vekur athygli mína....

5. janúar, 2017

Að mínu mati  er íslenski hesturinn eitt allra auðveldasta hestakyn í heimi að vinna með og þjálfa.   Ég hef síðastliðin fimm ár ferðast til Íslands nokkrum sinnum á ári og á þessum tíma hef ég unnið með og kynnst mörgum tugum íslenskra hrossa.   Mér þótti það strax athyglisvert þegar ég kom hér fyrst, og það gerist reyndar stundum enn þann dag í dag, er að íslenskir tamningamenn og þjálfarar finna hjá sér ríka þörf fyrir að segja mér hversu „sérstakur“ og „öðruvísi“ íslenski hesturinn er miðað við önnur hestakyn.  Ennfremur fylgir það gjarnan sögunni að margar aðferðir sem notaðar eru við þjálfun annarra hestakynja virki alls ekki við þjálfun íslenska hestsins.

Í byrjun beið ég spenntur eftir því að sjá á hvern hátt þetta íslenska hestakyn væri „öðruvísi“ en önnur hestakyn og hvaða þjálfunaraðferðir myndu af þeim sökum ekki virka á íslenska hestinn.  Það var ekki laust við að mér létti þegar ég sá, að eftir að hafa unnið með með hesta í 45 ár, allt frá Evrópu til Ástralíu, frá Bandaríkjunum til Grikklands og alls staðar þar á milli, að það var ekki nokkur munur á íslenska hestinum eða þeim þjálfunaraðferðum sem virkuðu á hann samanborið við önnur hestakyn í heiminum.   Það sem skilur þá frá mörgum öðrum hestakynjum er DNA sem gefur þeim hæfni til að ganga á fjölhæfari hátt en gengur og gerist, en að öðru leyti eru þeir bara venjulegir hestar.

Íslenski hesturinn er óvenju fljótur að læra, mjög viljugur til vinnu og afar næmur.   Ef þjálfarinn er vandvirkur þá eru þetta frábærir eiginleikar sem geta samt unnið gegn knapanum ef hann er kærulaus.  Það sýnir sig þá í andlegri spennu og kvíða sem endar yfirleitt með mikilli líkamlegri stífni.  Mér hefur fundist borga sig margfalt að byrja þjálfun þessara námfúsu og viljugu hesta á því að hjálpa þeim að öðlast sjálfstraust og að kenna þeim að ráða við flóttaeðlið þegar eitthvað nýtt kemur upp á eða þeir finna fyrir miklu álagi.

Útreiðar hafa alltaf haft mikla félagslega þýðingu á Íslandi.  Hin seinni ár hefur áhugi á keppni á hestum aukist gríðarlega, og ég er því oft spurður hvað sé hægt að gera til að fá hærri einkunnir í keppni.  Til að geta svarað þessari spurningu varð ég að komast að því hverjar kröfurnar í keppni væru og hvað dómarar væru að leita að þegar þeir vildu sjá mikið fas og afköst.  Eitt þeirra hugtaka sem stendur upp úr sem svar við þessum spurningum er orðið „fótaburður.“

Þetta er hugtak sem ég hef ekki heyrt notað í neinum öðrum keppnisgreinum, svo að ég varð að finna út úr því nákvæmlega hvað þetta þýddi.  Útskýringin sem ég fékk var súað þetta snérist um það hversu hátt hesturinn gæti lyft framfótunum á gangtegundum.  Annað sem ég heyrði var að hesturinn ætti að vera hvelfdur og með „burð í baki“ og halda bakinu vel uppi.   Þetta skildi ég betur, því þetta er einmitt það sem allt snýst um í uppbyggingu dressúr hestsins.  Við viljum alltaf að hann sé með burð í baki og noti magavöðvana til að lyfta því upp, sama hvað hann er að gera.  Hérna er það sem að ég verð var við árekstur í þeim kröfum sem verið er að biðja um í keppni á Íslandi. 

Dressúr er ekkert annað en hestafimleikar.  Eins og í venjulegum fimleikum þá tekur það mörg ár að þjálfa bæði huga og líkama til stórra verka.  Vegna þessa er einmitt búið að gera miklar rannsóknir á því hvernig hesturinn notar líkamann á eðlilegan hátt.  Í dressúr er eitt af því mikilvægasta sem við leitum að „framgrip“ eða lengd skrefsins.   Aukin skreflengd næst best þegar hesturinn nær að lyfta vel bakinu og spyrnameð afturfótunum beint upp og fram í gegnum hálsinn.  Þetta tengir saman yfirlínuna, lyftir öllum bolnum og það verður til pláss fyrir afturfæturna til að sveiflast langt fram og undir bolinn til að knýja hestinn áfram sem aftur færir okkur mikla spyrnu.

Gagnstætt þessu, þá felur mikill fótaburður það í sér að hesturinn notar herðarnar og framfæturnar meira í áttina upp og aftur.  Til að fá hámarks fótaburð þarf hesturinn líka og toga hálsinn og höfuðið upp og aftur.  En þegar það gerist, þá er það óhjákvæmilegt að bakið detti niður sem og búkurinn allur.  Þá geta afturfæturnir ekki komist svo auðveldlega undir hestinn þannig að hesturinn endar á því að draga þá á eftir sér.

Hvað er hægt að gera?

Dómararnir vilja sjá hestinn vinna upp í gegnum bakið í réttri líkamsbeitingu, en þeir vilja líka sjá mikinn fótaburð.  Mér sýnist að keppnisknapar í þessari aðstöðu séu komnir í svæsna klemmu þar sem ómögulegt er að uppfylla öll þau skilyrði sem beðið er um til að fá hæstu einkunn.

 Persónulega finnst mér mjög erfitt að búa til þessa tvo eiginleika á sama tíma, rétta líkamsbeitingu og mikinn fótaburð.  Maður getur haft annað í einu, en ekki bæði.

Knöpum í öllum keppnisgreinum er leiðbeint af dómurum.  Knapar sjá hvers konar þjálfun og sýning skilar árangri í keppni  og reyna að gera eins, því auðvitað vilja allir vinna.  Peningar spila svo alltaf stórt hlutverk því sigurvegararnir eru verðmætir gripir bæði sem ræktunargripir og/eða söluvara.  Mér sýnist að núna vinni hesturinn sem er með mesta fótaburðinn þó að hann sé fattur í baki.  Hestum sem fara hratt gengur líka mjög vel, en hraði er oft verðlaunaður í staðinn fyrir kraft og spyrnu.  Ég held ekki að þetta breytist ekki nema að það verði gerðar breytingar á kröfunum til knapa, eða „leiðara keppninnar.“

 

Tilgangur minn með þessum greinarskrifum var ekki að vera neikvæður.  Þvert á móti eru þetta einungis þau atriði sem hafa hvað mest vakið athygli mína á undanförnum árum í samskiptum við íslenska hesta og knapa.  Ég hef bent á það sem ég tel að gæti farið betur í kerfinu, og þess vegna fannst mér ég líka skyldugur að koma með hugsanlega lausn á málinu.  Til að bæta kerfið til muna væri hægt að breyta aðeins einu litlu orði.  Þessi breyting gæti orðið til þess að bæta líkamsbeitingu margra hesta á öllum gangi.

Mín hugmynd er þessi:  Breytið orðinu „fótaburður“ í „framgrip.“

Af hverju ekki að búa til kerfi sem verðlaunar hestinn fyrir að spyrna fram og upp með afturfótunum með öllum sínum krafti í stað þess að athuga hversu hátt hesturinn getur lyft framfótunum?  Auðvitað eins og áður hefur komið fram er skreflengd og spyrna mikið meiri þegar hesturinn lærir að lyfta bakinu og vera í réttri líkamsbeitingu.  Með lengri þjálfun lærir hesturinn að vera í jafnvægi meðan hann ýtir upp og fram með afturfótunum, og bætir þá við sig styrk og sjálfstrausti.  Þessi smávægilega breyting á „keppnisreglum“ tæki burtu árekstrana sem þjálfarar, sýnendur og dómarar lenda í núna meðan reynt er að gera tvo hluti í einu sem vinna algerlega gagnstætt hvorum öðrum.

Ég hef hitt margt skynsamt og snjallt fólk sem hefur mikla ástríðu fyrir íslenska hestinum í fjöldamörgum löndum.  Þessu fólki þarf að leiðbeina    Mín sýn er sú að það vanti upp á skýrleika frá þeim sem búa til „reglurnar“ um það hvernig þjálfun hestsins skal hagað á uppbyggjandi hátt.  Einnig þyrfti að skýra atriði sem vinna gegn hvert öðru samanber þessa grein.  Ég tel að daglegt líf hesta og manna á Íslandi yrði mun auðveldara ef nokkrar litlar breytingar yrðu gerðar í þessa átt.

Þetta var það sem vakti athygli mína......

                                                                                                                     Íslensk þýðing:  Svanhildur Hall

Innskot þýðanda:  Heimasíðu Peters má finna hér

Peter De Cosemo:  Þjálfun íslenska hestsins, það sem vekur athygli mína....