Rafael Soto og Steffi Svendsen ríða stökk

3. febrúar, 2019

Þjálfunarstig hests er metið eftir því hversu mikið hann er af framhlutanum þegar hann hreyfir sig.  Því meir af framhlutanum sem hesturinn er þeim mun hærra er þjálfunarstig hans.  Hann þarf jafnframt  að hreyfa sig í jafnvægi og óþvingað.

Líkamsbeiting og þjálfunarstig íþróttakeppnishesta á stökki er viðfangsefni þessa pistils. 

Tvær stökksýningar verða skoðaðar til að meta hver staðan er og vonandi stofna til umræðu um það hvert skal stefnt með þjálfun íþróttakeppnishesta á stökki. Sú fyrri sýnir Rafael Soto, yfirreiðkennara konunglega reiðskólans í Jerez í Andalúsíu á Spáni, ríða hesti reiðskólans á sýningu síðastliðið haust.  Rafael hefur verið í fremstu  röð dressage knapa í áraraðir á heimsvísu og m.a. keppt á nokkrum Ólympíuleikum með frábærtum árangri – best 8.sætið í einstaklingskeppni og 3. sæti í liðakeppni.  Hann er hættur keppni en einbeitir sér að þálfun knapa og hesta fyrir utan að ríða reglulega á sýningum fyrir gesti skólans.  Seinni stökksýningin sýnir Steffi Svendsen ríða Sjóla frá Teland  á stökki í fjórgangskeppni á World Ranking mótinu Elmia Icelandic Power Show í Jönköping  Svíþjóð síðastliðið haust.  Steffi er einn þekktasti þjálfari og sýnandi íslenskra hesta á meginlandinu.  Fyrir þessa stökksýningu fékk hún í forkeppni eftirfarandi einkunnir; 8,5 - 8,5 - 8,5 - 9.0 - 9,5 sem er ein hæsta einkunnaröð sem gefin var fyrir stökk á árinu 2018.  Mig langar að þakka Steffi fyrir að veita góðfúslegt leyfi fyrir því að nota myndbandið af henni og Sjóla við gerð þessa pistils um stökk.

Hér kemur myndbandið af Rafel þar sem hann ríður á sveigðum ferli og gerir nokkrar stökkskiptingar https://www.facebook.com/svannyhall/videos/10217319721892899/

Stökkið hjá hesti Rafael er hægt, þrítakta og með svifi.  Framstig afturfótanna á stökkinu er mun meira en afturstig afturfótanna, sem er mjög lítið, og afturpartur hestsins ber því mikinn þunga.  Að hesturinn geti framkvæmt stökkskiptingar í jafnvægi styður enn fremur að hann er mikið af framhlutanum.  Hesturinn notar kviðvöðvana vel til að lyfta bakinu upp og halda því uppi, og háls hestsins teygist fram í bitann á beislinu í mjúkri sveigju allan tímann sem sýnir greinilega frábæran burð í yfirlínunni og að jafnvægið sé gott.

Hér kemur myndbandið af Steffi þar sem hún ríður stökk í fyrrgreindri keppni.  Fyrri hluti myndbandsins  er stökkið sýnt á eðlilegum hraða en í seinni hlutanum er sama stökk sýnt hægt  https://www.facebook.com/steffi.kleis/videos/10217825303852586/ .

Stökkið hjá Sjóla frá Teland er þrítakta, með svifi og hraðinn er meiri en hjá hesti Rafael en þó varla meiri en meðalhraði.  Framstig afturfótanna virðist vera svipað og afturstig afturfótanna og hesturinn er því mun minna á afturhlutanum en hestur Rafaels. Hraði stökktaktsins hjá Sjóla er mun meiri en hjá hesti Rafaels og þegar svo er þá hefur hesturinn ekki tíma til að standa í afturfæturna nógu lengi til að þeir taki mikinn þunga af framfótunum.  Yfirlína Sjóla frá Telandi breytist á stökkkaflanum með því að yfirlína hálsins er stytt um miðbik stökksins og síðan fer hesturinn undir bita. Hinn mikli hraði stökktaktsins og breytileg yfirlína á hálsi hjá Sjóla benda til að hann sé ekki í góðu jafnvægi á stökkinu.

Í stuttu máli þá er hestur Rafaels mun meira af framhlutanum, með betra jafnvægi og réttari yfirlínu en hestur Steffi. Miðað við stökkeinkunnir Sjóla þá var þessi sýning hans metin af dómurunum sem frábær samanber íþróttaleiðarann sem má skoða hér  http://www.hidi.is/uploads/5/0/6/7/5067893/iceguidelines2014.pdf

Leiðarinn segir að til að fara yfir 6,5  í einkunn þá þurfi jafnvægið á stökkinu að vera gott (sjá taktur/jafnvægi í leiðaranum).  Hann segir jafnframt að til að fara yfir 7,5 í einkunn þá þurfi hann að vera í burði að aftan (sjá form/hreyfingar í leiðaranum). 

Þá er eðlilegt að spyrja; Viljum við hestamenn meta svona stökksýningu sem frábæra fyrst og fremst fyrir mjög miklar hreyfingar þrátt fyrir að jafnvægi, burði og formi sé ábótavant?  

Hvor hesturinn er nær því marki sem við viljum ná fram hjá hesti á stökki í íþróttakeppni?

Höfum við dómarar kannski aðra sýn á hvað sé gott jafnvægi, burður og rétt form á yfirlínu hjá hesti en dómarar annarra hestakynja hafa í sambærilegri keppni?

Þessar vangaveltur mínar verða vonandi til þess að opna umræður um það hvar við erum stödd og hvert við viljum stefna með þjálfun hrossa.  Kannski kemur það í ljós að við myndum græða á því að læra ný vinnubrögð og skilja ný eða önnur viðmið í þeirri viðleitni að þjálfa hestana okkar á sem farsælastan hátt. 

 

                                                                        Með kveðju, 

                                                                        Magnús Lárusson

Rafael Soto og Steffi Svendsen ríða stökk