Hlaupaþjálfun

1. nóvember, 2020

Úrvalshestar bjóða upp á hlaupaþjálfun.   Þjálfun af þessu tagi er ódýrari en full þjálfun, og felst í því að hrossið er látið hlaupa nokkra kílómetra á dag og hefur slík þjálfun margs konar kosti.   Þessi þjálfun er auðvitað frábær til að byggja upp þol hjá hestum en það er margt annað sem hún bætir líka eins og þessi listi sýnir:

1.  Þessi  þjálfun er frábær fyrir hross sem hafa orðið fyrir meiðslum t.d. í baki eða munni og geta þar af leiðandi ekki borið knapa.   Þá er um að gera að tapa ekki niður allri vinnunni, og halda hrossinu í líkamlegri þjálfun þó að ekki sé hægt að ríða hrossinu.

2.  Okkar reynsla sýnir að ótamin hross, eða lítið tamin græða mikið á því að vera orðin líkamlega sterk þegar þau þurfa að fara að bera knapa.   Þessi þjálfun felur í sér gríðarlega mikla tamningu því það að læra að vinna, læra að meta afslöppun og hvíld í vinnuferlinu, og rútínuna við að vinna daglega er ómetanleg tamning.

3.  Frábær leið til að koma tömdum hestum í form sem þurfa að leggja hart að sér, t.d. ferða- og smalahestum.

4.  Besta leiðin sem við vitum um til að brenna fitu ef hestur á við það vandamál að stríða að vera offeitur.  Þetta er ansi algengt og þá er vinna á hægu brokki með fetköflum inn á milli í eins langan tíma og hesturinn þolir það besta sem hægt er að hugsa sér.

Við gætum haldið áfram með þennan lista eitthvað áfram, en látum staðar numið.   Endilega hafðu samband ef þú vilt koma hestinum þínum í hlaupaþjálfun.   Mánuðurinn kostar aðeins 45.000 auk VSK.  Við skiptum öllum hrossum niður í hópa bæði eftir hegðunarmynstri, og líkamsástandi.  Mikilvægt er að hrossunum komi saman sem hlaupa saman, en stundum þurfa hóparnir að vera smáir en geta stundum verið stærri, sérstaklega þegar hrossin eru orðin vön að hlaupa saman.

Ath tökum stóðhesta aðeins skv. samkomulagi.

Hrossin lesta sig á hlaupum
Hrossin lesta sig á hlaupum