Að tala íslensku á Landsmóti

18. nóvember, 2008

“Pabbi, er þetta rétt sem þulurinn sagði?” spurði sonur minn, sem lauk samræmdum prófum 10. bekkjar í vor.  Við sátum í áhorfendabrekkunni á Landsmótinu og horfðum saman á kynbótadómana. “Nú, hvað sagði hann?” hváði ég og áttaði mig ekki á því í hverju ég þyrfti að vera dómari. “Hann sagði að hesturinn væri undan Aroni, sem er undan Óði, sem er undan Stígi” útskýrði sonur minn. “Jú, jú, þetta er rétt hjá honum. Folinn er undan Aroni, sem er undan Óð, sem er undan Stíg”  sagði ég.  Mér þótti vænt um að geta stuðlað að menntun sonarins og jafnframt staðið með einum kolleganum sem var umræddur þulur.
“Pabbi!  Þú hlustar ekki á það sem ég var að segja. Ég var ekki að tala um réttmæti ættfærslunnar heldur íslenskuna” sagði minn sonur önugur yfir eftirtektarleysi mínu.  “Hann hefur bara mismælt sig.  Það getur komið fyrir alla, væni minn” kom frá mér í föðurlegum tón. “Neibb, þetta eru ekki tilviljun heldur síbylja af vitlausum beygingum á nöfnum manna og hesta” hélt erfinginn áfram og lét sig hvergi. “Og, þessi þulur sker sig hér ekkert úr varðandi “mismælin” því það eru margir sem tala svona.  Það er eins og hver éti upp eftir öðrum” hélt hann áfram viss í sinni sök. 
 Það er eðlilegt að “mismælin” séu öpuð eftir því eins og hann afi þinn sagði stundum um slík tilfelli. “Hvað höfðingjarnir hafast að hinir mega líka gera það” kom frá mér í tilraun til að lækka í syninum því hvöss augnatillit frá þeim, sem sátu næstir okkur í áhorfendabrekkunni, fór fjölgandi yfir truflandi samtali okkar.  Mér mistóskt og hann hélt áfram.
 “Oft biðja þulirnir knapana að tölta, brokka eða skeiða eftir brautinni. Ég hef fram að þessu skilið það svo að knapinn sæti á hestinum. Hann riði síðan hestinum á feti, brokki, tölti, stökki eða skeiði”  lauk hann ræðunni að ég hélt. En þá kom:

“Pabbi, þarf maður ekki að kunna að tala íslensku til að vera þulur á Landsmóti?”

Með kveðju
Magnús Lárusson

Myndin sýnir greinarhöfund rígmontinn með börnin sín þrjú sem öll koma á einn eða annan hátt pistlaskrifunum við (fjórða barnið var ekki fætt við myndatökuna).  Magnús er náttúrulega efstur, svo er íslenskumaðurinn Jósef Gunnar (aðalpersóna þessa pistils) til vinstri, þá Harpa sem sér um þýðingar á pistlunum yfir á ensku, og Edda Margrét sem veitir föður sínum innblástur við pistlaskrifin með barnslegu og einlægu atferli sínu.
Að tala íslensku á Landsmóti