Gott brokk?

14. júlí, 2014

„Rosalega er þetta flott og gott brokk hjá þessum hesti“ sagði næsti maður við mig hrifinn þar sem við stóðum í rigningarsudda á nýafstöðnu Landsmóti hestamanna.  Við horfum saman á  brokkhluta úrslitakeppninnar í  A – flokki gæðinga og hann benti á einn ákveðinn hest í brautinni.  „Ja, er það? „ sagði ég hugsi og velti því fyrir mig hvort ég ætti nokkuð að segja meira um málið.  En þar sem þetta er mikill reynslubolti í hestum, áhrifamaður þar sem annars staðar, þá fannst mér það hálfóviðeigandi að skilja við hann svona og spurði.  „Sérð þú svif í brokkinu?“

Eftir smástund þá segir viðmælandi minn „Ha, þú segir nokkuð.  Hesturinn er algjörlega sviflaus.  En hann er samt flottur á brokkinu.“  Við héldum áfram að horfa á brokkið og þegar viðkomandi hestur fór framhjá okkur á langhliðinn fjær þá fannst mér viðeigandi að spyrja.  „Hvernig er takturinn á brokkinu?“ Eftir tvær langhliðar á brokki þá kemur lífsmark frá viðmælanda mínum sem segir með hissablandinni röddu yfir uppgötvun sinni:  „Er þetta brokk? Hesturinn er svo fjórtakta að það er lítill munur á þessu og tölti.“

Við höldum áfram að horfa þegjandi á meint brokkið þar til hann kveður sér hljóðs með spurn og efa í röddinni. „Er þetta þá ekki gott brokk sem hesturinn sýnir?“  Ég yppti öxlum og svaraði „Bíðum og sjáum hvað dómararnir gefa.“  Þeir gáfu upp undir níu í einkunn fyrir brokk sem flestum áhorfendum trúi ég að finnist eins og mér benda til að verkefnið hafi verið vel leyst af hendi eða réttara sagt fótum.  Viðmælandi minn sagði hróðugur  og afgreiddi mig þar með sem ómerking í mati á brokki.  „Ég vissi að þetta var bæði flott og gott brokk.“

Brokk er skilgreint sem tvítakta gangtegund með svifi á milli spyrnu skástæðra fóta - staðreynd.  Gæði brokks aukast með auknu svifi og auknum skýrleika tvítaktsins.  Auk þess á hestur að lengja skrefin og halda sama hraða takts á brokki þegar hraði brokks eykst og auka þar með skreflengdina.  Hér  á landi geta hestar fengið háa einkunn fyrir brokk þó svif allt að því vanti algerlega, fjórtaktur nær jafn tölttakti og hraði taks mjög hraður þegar hann eykur ferðina ef fótaburður og hraði er mikill á brokkinu.  En þetta er allt merki um það að hestur spyrni sér ekki áfram heldur ýti sér áfram og sé á framhlutanum.  Í stuttu máli segja brokksérfræðingar  – að svona brokk er ónýtt til að koma hesti af framhlutanum en það er eina leiðin til að auka þjálfunarstig hests, þ.e. koma hesti af frumtamningastigi.

Magnús Lárusson

Á myndinni er Eldur frá Torfunesi á brokki - með svifi!

Gott brokk?