Mín fyrsta hestatamning

19. mars, 2017

„Ræs Magnús minn“ og svo kom „Þú þarft að fara að sækja kýrnar - núna“.  Þannig bauð hún móðir mín mér góðan daginn flesta sumardaga fyrir rúmum fimmtíu árum síðan. Mikið rosalega fór orðið ræs í taugarnar á mér þá og gerir reyndar enn í dag. Ég var latur til verka þennan tiltekna sólríka dag seint í júní. Þessi tiltekni dagur var dagurinn sem ég tamdi minn fyrsta hest, en það vissi ég ekki á þessari stundu þar sem ég var enn milli svefns og vöku, óráðinn í hvað gera skyldi – gera það móðir mín bauð eða það sem mig langaði til, að sofa áfram.    

Næstu orð frá móður minnar  „Hesturinn þinn kom í nótt. Hann er inni i fjárhúsi.  Taktu hann og sæktu kýrnar á honum ef þú getur riðið honum.“  tóku af allan vafa hvað næst skyldi gera.  Ég var búinn að bíða og bíða milli vonar og ótta um hvort af því yrði að hesturinn kæmi til okkar. Og núna var hann hér.  Það næsta sem ég man var að ég hljóp með dúndrandi hjartslátt af eftirvæntingu niður brekkuna í átt að fjárhúsunum klæðandi mig á leiðinni í buxurnar og úthverfa peysuna, berfættur í gúmmískónum.  Þarna var hann, svartur með hvíta stjörnu og starði á mig í gegnum opinn gluggann á fjárhúsinu.  Draumur varð að veruleika.   

Ég lagði bandbeisli við hestinn með fálmandi höndum, teymdi hann út úr fjárhúsinu og hoppaði á hann berbakt.  Hann fetaði hiklaust með mig meðfram hesthúsinu þegar ég bað þar til ég vildi sveigja af leið frá fjárhúsinu í áttina til kúnna.  Þá stoppaði hesturinn og fór að ganga hiklaust aftur á bak, og því hraðar eftir því sem ég bað hann meira um að fara áfram.  Mér sortnaði fyrir augum af örvæntingu því nú var komið að ögurstundinni, hvort ég gæti riðið honum.  Brúnka fylgdi sá leiði merkimiði að hann gerði sér dælt við minna vana, gengi meðal annars aftur á bak til að komast hjá því að gera sinn part. Skilyrðið fyrir því að fá hann var að ég gæti riðið honum til gagns annars færi hann beint heim til sín aftur.

Ég reyndi og reyndi að fá hann til að fara frá fjárhúsunum en í hvert skipti sem ég reyndi að beygja frá bakkaði hann á fullu.  Nú voru góð ráð dýr því aðrir hestakostir en þessi voru ekki í stöðunni fyrir mig í fyrirsjáanlegri framtíð.  Fyrst Brúnki vildi ekki fara áfram til kúnna þá skyldi hann bara fara aftur á bak til þeirra, því til þeirra skyldi hann!  Mér tókst að fá hann frá fjárhúsunum með því láta hann ganga aftur á bak þá leið sem ég þurfti að fara. Eftir dágóðan spöl í afturábakgír og minnkandi grátur, þá bauð ég honum að fara til kúnna í áframgír.  Sama varð upp á teningnum og fyrr. Nú sínu áræðnari en í fyrstu setti ég hann í afturábakgír og nú sínu lengra en áður þar til ég bauð honum að fara áfram. Eftir nokkrar endurtekningar, þar sem Brúnki gamli, 19 vetra, fékk að velja um aðferð en ekki stefnu ákvað hann að auðveldara var að fara áfram en afturábak.  Eftir þessa stuttu, skýru og örvæntingarfullu tamningarstund brá hann aldrei á það ráð að ganga aftur á bak hvorki við mig né yngri systkini mín.  Að hafa val og láta það auðvelda vera það sem maður vill getur verið skynsamleg leið í tamningum.  Gefur þú þínum tamningahesti val þegur aðstæður bjóða upp á það?

Mín fyrsta hestatamning