Nokkur orð um kennslusýningu Fáks

7. apríl, 2019

Ég fór á kennslusýningu Fáks laugardaginn 30.mars sl. og var þar frá byrjun til enda.  Þetta form á fræðslu og skemmtan fyrir hestamenn er frekar nýtt af nálinni hér á landi og tókst í heild sinni frábærlega.  Margt fólk var á pöllunum og fylgdist af áhuga með því sem fram fór niðri á gólfi.  Næring var í boði í anddyrinu og nokkur fyrirtæki voru þar einnig að kynna sínar vörur og þjónustu. 

Efnisatriðin, sem boðið var upp á niður á gólfinu, voru öll áhugaverð. Það eina sem vantaði og vantar reyndar alltaf og alls staðar þar sem hestamenn koma saman er að hafa skýra sameiginlega mynd af því hvernig við viljum sjá fullþjálfaðan gæðing mótaðan og riðin á hverri gangtegund og af hverju. Allar innkomurnar á gólfið voru um einhver atriði sem viðkomandi taldi vera mikilvægan part á leiðinni að einhverju lokatakmarki og þá að sjálfsögðu sínu.  Það stakk mig að áhersluatriðin voru misjöfn meðal sýnenda varðandi það hvernig þau byggðu í aðalatriðum upp sinn hest.

Margir töluðu um nauðsyn þess að hestur í reið sé með burð í baki og um nokkrar heilsufarslegar afleiðingar þess ef svo er ekki.  Hins vegar vantaði alveg að segja frá því hvernig má sjá að hestur sé með burð í baki eða ekki. Margir hestanna voru með undirháls/hjartarháls og framstig afturfóta þeirra var mun minna en afturstigið, en þetta tvennt er m.a. greinarmerki þess að bök hestanna séu ekki burði.  Hestarnir eru því á framhlutanum sama hvar neflína hestanna er og hvernig reisingu þeirra er að öðru leyti háttað.  Af þessum sökum voru sumir þeirra stirðir og bundnir á töltinu án þess að ástæðnanna væri getið. 

Nokkrir knapanna voru kynntir sem afreksknapar. Þeir sýndu okkur hvernig þeir undirbjuggu hestana sína fyrir vinnustundina og riðu þeim til að byrja með ýmist á feti, tölti, brokki og stökki í vinnuformi. Síðan var okkur sýnt hvernig farið var að því að gera meiri kröfur til hestanna t.d. á hægu tölti.  Birtingarmyndin breyttist þá; yfirlínan styttist hjá hestunum því hálsinn styttist, þykknaði og undirháls myndaðist í flestum tilfellum. Skrefin styttust vegna þess að framstig afturfóta varð minna en áður, mýktin minnkaði og taglburðurinn varð stífur.  Hins vegar breyttist fótaburðurinn að framan, hnélyftan hækkaði og framgripið minnkaði mikið.  Þetta gerðist með einum eða öðrum hætti hjá öllum nema hjá hesti Árna Björns. En Árni Björn sagðist ekki taka tauminn að sér þegar hann þurfti að stoppa eða hamla hestinum heldur halda höndunum kyrrum frammi. Sennilega er það galdurinn við hömlun eða stöðvun lengra kominna hesta, að gera það ekki með taumatosi.  Ég vil trúa því og var hrifinn af reiðmennsku Árna Björns.

Skiljanleiki hins talaða orðs er algjör forsenda þess að kennslusýning geti staðið undir nafni. Hið talaða orð heyrðist oftast vel og greinilega upp á pallana. Hins vegar var framsagan og skipulag hins talaða orðs misjöfn þannig að boðskapurinn hitti stundum ekki í mark.

Mér finnst óviðeigandi að nota blótsyrði á opinberum vettvangi inn í útskýringar um tamningar og reiðkennslu eins og kom nokkrum sinnum fyrir hjá Antoni Páli.

Tveir myndskjáir voru uppi til að auðvelda áhorfendum að meðtaka boðskapinn í nokkrum atriðum.  Mér finnst það frábær hugmynd og ég trúi að sú tækni sé komin til að vera á svona sýningum. Þulir og aðrir stjórnendur voru niðri á gólfi við sín störf og við það fannst mér boðskapur atriðanna verða beinskeyttari og áhorfendur einbeittari við að fylgjast með.

Fáksmenn eiga hrós skilið fyrir framtakið og áræðnina að koma kennslusýningunni á koppinn. Ekki síður eiga knapar og þjálfarar skilið mikið hrós fyrir að „leggjast flatir“ með sig og sinn hest fyrir framan fróðleiksþyrstan og óvæginn  múginn.  Mér fannst sýningin takast í heild sinni frábærlega vel og takk fyrir mig.

 

Með kveðju, Magnús Lárusson, M.Ag

                                                     

Myndin er af henni Telmu og Baroninum en hún bar hita og þunga þessa dags.  TAKK Telma.

Nokkur orð um kennslusýningu Fáks