Nokkur orð um þolþjálfun

3. janúar, 2009

“No pain, no gain” var yfirskrift þjálfunaraðferða íþróttamanna vel fram yfir miðja síðustu öld.  Því var trúað að framfarir íþróttamanna yrðu litlar sem engar nema viðkomandi píndi sig áfram við æfingar. Að herða íþróttamanninn upp frá fyrsta degi var talinn besti undirbúningurinn fyrir þau verkefni sem framundan voru. Sama hugsun hefur gilt varðandi þjálfun hrossa. 

Með aukinni þekkingu á virkni mannslíkamans og mannshugans og samspili þar á milli þá hafa þjálfunaraðferðir íþróttamanna breyttst. Meiri árangur, bæði skjótari og langvarandi, fylgdi í kjölfarið ásamt því að enska orðatiltækið í upphafi pistils var ekki lengur leiðarljós í þjálfunaraðferðum.

Þol er talið vera forsendan fyrir annari líkamlegri þjálfun eða undanfari.  Að hafa mikið þol merkir að geta gert einhvert atriði í langan tíma eins og að hlaupa langhlaup.  Til þess að reiðhesturinn okkar sé fær að sinna sínu hlutverki sem reiðhestur þá þarf hann að hafa mikið þol.  Algeng íslensk aðferð við þolþjálfun hesta er að koma á þeim lafmóðum heim úr reiðtúrum og láta þá blása mæðinni hreyfingarlausa inni í stíu eða úti í gerði.

Að verða mikið móður í byrjun þolþjálfunar hefur neikvæðar afleiðingar í för með sér.  Fyrir það fyrsta þá duga þolvöðvarnir, sem nota eingöngu súrefni, ekki til hlaupsins og þurfa að kalla til snerpuvöðvanna, sem nota ekki súrefni, til að viðhalda hlaupinu.  Mjólkursýra hleðst þá mjög hratt upp í vöðvum þess móða, vöðvarnir  stífna og limaburðurinn ber þess merki á þann hátt að skref styttast og fótaburður minnkar.  Í annan stað þá segir líkami hans honum stöðugt að hægja á sér því honum finnst puðið vont og erfitt. 

Sé samt haldið áfram á sama veg við þolþjálfunin þá myndast bæði líkamleg og andleg spenna í hestinum.  Hver þekkir ekki að fyrstu reiðtúrarnir voru æðislegir? Hesturinn var eins og hugur manns og gerði allt fyrir mann með mýkt, fótaburði og fúsleika.  Síðan varð hann frekur í taumum.  Hann vill ekki fara frá húsi öðruvísi en með ólund af einhverju tagi.  Hann er alltaf að flýta sér þegar frá húsi var komið og sérstaklega heim á leið.  Fótaburður og mýkt í hreyfingum minnkaði.

Hestur er móður þar til uppsafnaða mjólkursýran er uppurin.  Best er að hestur sé á hreyfingu á meðan því hann afmæðist mun fyrr en ef hann er alveg hreyfingarlaus.  Hreyfingin veldur því að blóðið í bláæðunum fer mun hraðar til hreinsistöðvana og blóðrásarkerfið er því fyrr tilbúið fyrir næstu átök. 

Hvað gerist venjulega þegar þú byrjar með of miklum látum í líkamlegu átaki?  Hvað gerir hesturinn þinn í sömu stöðu?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Á myndinni er Svanhildur að hefja reiðtúr - á feti

Nokkur orð um þolþjálfun