Siðareglur og hvað svo?

5. febrúar, 2019

Á endurmenntunarnámskeiði Hestaíþróttadómarafélags Íslands (HÍDÍ), sem haldið var fyrir nokkru síðan, voru siðareglur félagsins kynntar.  Reglurnar fjalla um hvernig við dómarar eigum að haga okkur í samskiptum hverjir við aðra – líka samskipti okkar við hesta, keppendur og hverja þá sem eru að sýsla með hestatengda atburði sem við dæmum á.  Mér finnst gott og oft nauðsynlegt að hafa viðmið eins og þær til að feta mig veginn fram á við.  En hvað á ég að gera þegar eitthvað er ekki eins og reglur segja til um og ég er hvorki gerandi eða þolandi heldur bara áhorfandi og ekki í opinberu dómarasæti?

Fyrir nokkru var ég staddur í Samskipahöllinni, reiðhöllinni í Spretti, til að halda í hest á liðsæfingu fyrir Áhugamannadeildina í tíma sem var öllum opinn.  Þar var einnig liðshópur á æfingu fyrir fjórgangskeppnina í Meistaradeildinni.  Að halda í taum á tömdum hesti, sem vill standa kyrr, gerir ekki miklar kröfur til athygli af minni hálfu, þannig að ég fór að fylgjast með því sem fram fór í kringum mig.  Flottir hestar geta enn heillað mig og þarna var heillandi hestur setinn af knapa úr fyrrgreindum hópi úr Meistaradeildinni.  Knapinn reið hestinum um völlinn á mismunandi hraða á flestum gangtegundum til að máta sig fyrir komandi keppni.  Knapanum til halds og trausts við undirbúninginn var hópur manna.  Hann samanstóð af tiltölulega nýútskrifuðum reiðkennurum frá Hólum, sem flestir hafa það einnig á ferilskránni að vera afar farsælir þjálfarar og sýnendur hrossa, og já, ég er að meina í fremstu röð!

Höllin er mikið mannvirki að stærð en samt tiltölulega hljóðbær þannig að mannamál greindist vel niðri á gólfi þar sem ég stóð. Auðvelt var því fyrir mig að heyra leiðbeiningar hópsins til knapans um aukið orkustig og meira þetta og meira hitt. Er  leið á æfinguna þá greindi ég að meira þurfti til að mati álitsgjafanna til að viðunandi árangur næðist í komand keppni en sýnt var. Einnig greindi ég að flotta hrossið gerðist þreytt að vera í þeirri bóndabeygju sem það var sett í, og því þótti greinilega veran þar vond.  Hrossið varð því smám saman þungt á höndum. Eftir árangurslítið og áframhaldandi þóf millum knapa og hests, og lítilsmegandi leiðbeininga gegn auknum þunga á taum þá brá knapinn á það ráð að höggva nokkrum sinnum hressilega í taumana á beislisstöngunum.  Krafturinn í höggunum fannst mér vera sambærilegur við þann sem hraustir sveitastrákar nota við að reka niður girðingastaura  þegar þeir berir að ofan vilja sýna öðrum mátt sinn og meginn.

Hrossið virtist í fyrstu léttast á taumum við höggin en eftir hálfa langhlið þá var farið að síga í sama farið og áður og því fyllilega náð á miðri næstu skammhlið. Þá breytti knapinn um aðferð og hringsnéri hrossinu nokkrum sinnum sennilega til að reyna að létta það á taumum.  Hringferillinn var það lítill og ferilhraðinn það mikill að það lá við nokkrum sinnum að hrossið félli á hliðina.  Þá virtist reiðkennurunum og knapanum einsýnt að nú væri ekki frekari breytinga til betrunar að vænta af hrossins hálfu og slógu frekari æfingum á frest.

Ég var nú ekki undirbúinn með upptökutæki fyrir þennan atburð þannig að ég hef enga sönnun fyrir því sem ég hér lýsi heldur heldur bara mitt minni, mitt mat og mína upplifun.  Ég vildi að þetta hefði ekki gerst. Ég vildi að ég hefði ekki séð þetta.  Ég vildi að ég gæti gleymt þessu. Ég get líka látið vera að skipta mér af þessu.  En kemur mér þetta við? Þessar hugsanir komu og fleiri fylgdu í kjölfarið. 

Oft er sagt að mennt sé máttur.  Máttur til að leysa verkefni og máttur til að sjá þegar ekki er hægt að leysa verkefni eins og virtist blasa við löngu áður en knapinn greip í vanmætti, örvæntingu eða reiði til líkamlegra meiðinga.  Ég trúi ekki að reiðkennurum frá Hólum sé kennt að halda svona áfram löngu eftir að hestur gefi ítrekað til kynna að meir geti hann ekki vegna þreytu, ónógs styrks og óþægilegrar líkamsstöðu.  Ekki heldur að reiðkennarar menntaðir þaðan eigi að sætta sig við og samþykkja með þögn sinni svona meiðingar á hestum nemenda sinna.  Ég vil heldur ekki trúa að svona úrlausnir séu almennt viðhafðar við þjálfun hrossa fyrir sýningar í Meistaradeildinni eða nokkurri annarri deild.  En hvað á maður að halda þegar vinnubrögð sem þessi eru viðhöfð blygðunarlaust að því er virðist á opinberum stað innan um almúgann og fyrir framan mann sem heldur í hest?  Og hvað er þá gert á bak við luktar dyr ef þetta virðist vera sjálfsögð birtingarmynd þjálfunarstundar fyrir hvern sem er?

Þarna voru fyrirmyndir á ferð og fólk framtíðarinnar.  Knapi, sem virtist hafa mikla færni á valdi sínu, ríðandi á frábærlega kostum búnum hesti, og menntaðir reiðkennarar og jafnframt þekktir þjálfarar og sýningarknapar - þeir hljóta að vera gera rétt og vera til eftirbreytni ... eða hvað? 

Ég ætla ekki að gefa þessum atburði nafn – læt aðra um það. Að setja sig í spor annarra er þekkt aðferð til að meta hvort eitthvað sé í lagi sem gert er eða ekki.  Ég þekki engan sem vildi vera hestur í þessari stöðu og trúi ekki að þeir sem hlut eiga að máli vilji heldur vera það. Sagt hefur verið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Þess vegna kemur mér þetta m.a. við og þér hver sem þú ert sem lest þetta.

Hvað er til ráða þegar svona gerist?  Ég veit það hreinlega ekki. Siðareglurnar, sem kynntar voru á endurmenntunarnámskeiði HÍDÍ, segja ekki í hvaða farveg eigi að fara með svona mál og þess vegna skrifa ég þennan pistil.

 

                                                                                   Með kveðju,                                                                                                            

                                                                                   Magnús Lárusson

 

 

Siðareglur og hvað svo?