Sparideildin

9. febrúar, 2018

Mér finnst það afrek út af fyrir sig að hafa komið hestaíþróttakeppni að sem reglulegum þætti í sjónvarp. Hafið mikla þökk fyrir það, þið sem standið að þeim gjörningi.  Mér finnst líka að með því hafi opnast mikil tækifæri til góðra verka sökum þess að unnt er að ná í einu vetfangi til svo margra bæði hérlendis og erlendis.  Heimurinn er okkur opinn til kynningar á íslenskri hestamennsku í hinni víðustu merkingu á svipstundu.

Við sjáum okkar besta fagfólk sparibúið keppa á sínum vel hirtu hestum. Við sjáum okkar besta fagfólk sparibúið við dómstörf.  Við sjáum fallega umgjörð hvar sem á er litið. Við sjáum þuli og sérfræðinga kynna það sem fram fer og lýsa frammistöðu hvers og eins.

Við sjáum í fordómi einn hest í einu og myndavélin sýnir allt.  Við sjáum hesta með opinn kjaft, hesta með lafandi tungu, hesta halla undir flatt, hesta gnýsta tönnum, hesta sveifla tagli í gríð og erg og hesta með hámarks eftirgjöf í hnakka þannig að nasir nema við háls vegna þess taumtakið er eða hefur einhvern tímann verið of mikið.  Við sjáum knapa sem hafa nánast náragirt sinn hest, knapa sem berja fótastokkinn af eldmóði á yfirferðagangi, knapa sem skella í hnakkinn nánast í hverju skrefi á brokki og stökki, knapa með fætur aftur í nára hests, knapa með grófar og meiðandi taumábendingar og knapa með hendurnar út um allt vegna þess að reiðtaumar eru allt of langir. 

Upptalningin hér fyrir ofan er dæmi um slæma og grófa reiðmennsku meðal meistaraknapa á erlendum hestakynjum.  Eitthvað virðast dómar hér ekki ná utan um þessa lesti þrátt fyrir að leiðarinn sé afar skýr hvað þessi atriði varðar.  Einkunnir fyrir frammistöðu eru almennt afar háar og munur á milli misgóðra sýninga er lítill. Reiðmennska, samband og form í leiðaranum segir beinum orðum að gefa skuli lágar einkunnir fyrir áðurgreinda lesti.  Eldveggirnir hreinlega banna hærri einkunn en 2.0 fyrir grófa reiðmennsku og aðfinnsluverð reiðmennska stoppar í 6.0.  Enginn hestur í fjórgangnum í deildinni nú fékk undir 6.0 í aðaleinkunn!    

Er íslenski hesturinn svo sérstakur, eina ferðina enn, að það þurfi að ríða honum með þessum hætti?  Kunna dómarar ekki að nota leiðarann? Eða standa dómarar ekki í lappirnar þegar á hólminn er komið og gefa ekki lága einkunn þegar það á við?  Það skiptir öllu máli að þeir kunni leiðarann, þori að nota hann og geri það því þeir leiða leikinn.

Bláir jakkar einkenndu dómarana.  Bleikir jakkar einkenndu ritarana.  Einkennileg tilviljun að blástakkarnir voru allir karlkyns og bleikstakkarnir voru allir kvenkyns. Er þetta enn eitt dæmið um að konur geta og eiga bara að gera það sem þeim er sagt að gera?  Og að einungis karlpeningnum sé treystandi fyrir ákvörðunartökum?

Hugmyndin að hafa spjall um framgöngu og frammistöðu hvers knapa er stórgóð ef hún eykur skemmtan og er fræðandi fyrir þann sem á horfir.  Jákvæðni er mikilvæg í lífinu en þegar allt er meira og minna gott í lýsingu spjallsérfræðingsins þrátt fyrir að birtingarmyndir gjörninganna væru afar misjafnar þá missir spjallið einfaldlega marks vegna ótrúverðleika.

Hugmyndin að hafa stutt spjall við keppendur um hvernig þeir upplifa frammistöðu sína strax að lokinni forkeppninni er líka stórgóð. Á þann hátt færumst við, sem á horfum, nær og tökum pínu þátt í leiknum og það er gaman að fá að vera með.  Knaparnir hafa eins og annað fólk tilfinningar og þeim ber að sína virðingu og stundum er misbrestur á því bæði með efni og form spurninga.

Að slíta barnsskónum er orðatiltæki sem gjarnan er notað þegar brasið í byrjun er búið og hlutirnir orðnir eins og þeir eiga að vera.  Sparideildin er orðin fullorðin og agnúarnir eiga því að vera sniðnir af – lagið þetta strax því ég trúi ekki að við viljum hafa þetta svona.  Vilt þú það?


Magnús Lárusson M. Ag.

 

 

Sparideildin