Staðan í hestamennskunni

9. desember, 2012

 

 

Það þykir til eftirbreytni að staldra við stöku sinnum á lífsleiðinni og spyrja sjálfan sig: Hvar er ég staddur? Er staðan ásættanleg? Stefni ég í þá átt sem stefnt var að í upphafi? Hverju þarf ég að breyta ef breytinga er þörf?  Því oftar sem staldrað er við á lífsleiðinni og spurt þeim mun minni líkur eru á að mikilla breytinga sé þörf. 

Hestamennskan okkar er á þeim stað í dag að það er tímabært að staldra við og sennilega hefði það verið farsælt fyrir okkur að gera það fyrir löngu síðan.  Ein birtingarmyndin á hestamennskunni okkar er að rúmlega helmingur hrossa sem er í keppni og sýningum á landsmótum og kynbótasýningum síðastliðin tvö ár er meiddur í munni og / eða á fótum.  Margt bendir til þess að þetta ástand hafi verið svona í nokkurn tíma og komið í ljós þegar farið var að athuga og skrá áverkana.  Þetta er ljót birtingarmynd og kemur við margan manninn m.a. vegna þess að enginn vill vera þekktur fyrir að meiða og vera vondur við hrossin sín.  Hins vegar er þetta staðreynd sem hverfur ekki þótt við hættum að skrá áverkana. 

Meiddu hrossin, eins og hin sem voru ómeidd, voru undir stjórn fagfólks, okkar bestu manna, ekki þeirra sem ekki kunna og ekki geta.  Sá sem horfir á aðgerðarlaus ber ekkert minni ábyrgð en gerandinn, aðgerðarlaust áhorfið gerir mann sekan. Birtingarmyndin er áfellisdómur á viðhorf okkar til hrossa og vinnubragða og hugmynda um tamingu og þjálfun hrossa.  Okkur hefur mistekist og okkur finnst það vont. Eins og gengur þá viðurkenna sumir ástandið og aðrir afneita því og enn aðrir réttlæta.  Svona er birtingarmyndin af stöðunni og hún er óásættanleg og vond.

Há einkunn fyrir frammistöðu er hvetjandi fyrir reiðmann að gera aftur sama hlut sama hvernig sú frammistaða var fengin. Þess vegna eru dómarar mjög mótandi í því hvernig reiðmennskan er hverju sinni og ráða miklu hver stefnan verður og gildir einu hvort það eru dómarar kynbótahrossa, gæðinga eða íþróttakeppnishesta.  Viðhorf þeirra og mat á því hvað er æskilegt eða óæskilegt í þjálfun, sýningum og keppni skiptir því mjög miklu um stöðuna og framhaldið.  Höfum hugfast að sérhver dómsskali er afsprengi okkar hugmynda og viðhorfa til hestins og noktunar hans í keppni og sýningum. Eins hvernig við þjálfum þá sem dæma og síðast en ekki síst okkar hugmyndir hvernig og hvað sé kennt þeim sem eru að byrja í hestamennsku og hvað sé æskilegt. 

Birtingarmyndin er ljót og hestmeiðandi.  Við viljum ekki hafa hana uppi á vegg til sýnis, hvorki okkur né öðrum.  Hún skaðar okkar sjálfsmynd og við finnum til skammar.  Erlendir vinir okkar og unnendur íslenska hestsins eru undrandi og skilja þetta ekki.  Við þurfum að breyta viðhorfinu til hestsins og vinnubrögðunum og mati við tamningar, þjálfum, kennslu og sýningar.  Við þurfum stefnubreytingu.

Staðan í hestamennskunni