Vinur eða leiðtogi

18. maí, 2009

“Já, en hann er vinur minn og ég vil hafa hann þannig áfram” sagði vinkona mín ein ákveðinni röddu.  Hún var á sínu fyrsta námskeiði hjá mér og umræðan í byrjun þess var, eins og venja er, um hvort það væri eitthvað sem þátttakendur vildu bæta í samskiptum við sinn hest.  Vinkona mín sagði að samband sitt við sinn hest væri fullkomið og ekkert væri hægt að betrum bæta í þeirra sambandi.  Eftir smá umhugsun sagði hún að kannski kæmi það fyrir að hann væri frekur við hana.  Frekjan, sem væri varla orð á gerandi, birtist á tvennan hátt.  Ýmist væri það að hann vildi ekki fara í ákveðna átt þegar hann væri beðinn eða hann vildi ekki vera á þeim hraða sem henni hugnaðist.  Tíðni frekjunnar væri ekki minni þegar reiðskjótinn var teymdur en þegar honum var riðið varð mér ljóst af frásögn vinkonu minnar.

“Mín ágiskun af frásögn þinni er að hann beri takmarkaða virðingu fyrir þér þar sem hann er ekki spenntur eða óöruggur með sig. Mitt ráð við því er að kenna honum að hlýða.  Þú verður að vera staðföst í því að hann geri alltaf það sem þú vilt en ekki það sem hann vill, þó það sé bara stundum” sagði ég í leiðbeinandi tón og fékk þá andsvarið sem pistillinn byrjaði á.

“Hugsaðu þér tvo mennska vini. Til að vinskapur haldist þá þarf að vera gagnkvæm virðing og traust milli þeirra en þeir þurfa að komast að samkomulagi um hvað eina sem þeir gera saman.  Eins geta þeir ákveðið að skiptast á hvenær hvor eigi að ráða ferðinni.  Þess konar vinskapur milli manns og hests, einn og sér, getur ekki verið farsæll til frambúðar.  Meira þarf að koma til því það getur einfaldlega verið hættulegt að þurfa að fara í umræður við hestinn í hvert skipti sem á að breyta um átt, hraða eða gangtegund.  Hann þarf að læra að hlýða alltaf” sagði ég og taldi víst að nóg væri útskýrt.

“Já, en þá verður hann hræddur við mig” sagði mín vinkona í andmælandi tón. “Það þarf ekki að vera svo. Ekki sé ég að krakkarnir þínir sú hræddir við þig og ég sé ekki annað en þeir geri það sem þú biður þá um.  Þú ert sanngjörn við þau og þau kjósa að hlýða þér en gera það ekki í ótta.  Þannig þurfum við að hafa það við okkar hesta líka til að báðir hafi ánægju af samskiptunum eins og sannir vinir þótt þú ráðir ferðinni” útskýrði ég og nú var að fullu útskýrt.

Hvers konar leiðtogi ertu fyrir þinn hest?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Á myndinni er Magnús búinn að ná leiðtogaáhrifum yfir tryppi úr sinni ræktun, taumur samt slakur þannig að tryppið getur fært sig burt ef það vill

Vinur eða leiðtogi