13.09.2016 | Pistlar

Að loknu Landsmóti hestamanna 2016

Ég sat og lá til skiptis í áhorfendabrekkunni á Hólum í Hjaltadal andspænis dómurunum  og fylgdist með kynbótadómum stóðhesta.  Til að því sé haldið til haga og því komið á framfæri strax þá fannst mér margir þeirra vera mjög góðir að upplagi og fara á löngum köflum fallega undir og aðrir síður eins og vera ber.  Ég ælta að tæpa á nokkrum atriðum, sem vöktu athygli mína, á dómum og sýningu kynbótahesta á Landsmótinu  2016. 

Hestarnir virkuðu á mig þreyttir í lokin og sumir voru ekki nema svipur hjá sjón við verðlaunaafhendinguna frá fordómi. Sérstaklega átti þetta við um hestana sem skörtuðu fleiru en hraða og fótaburði á gangegundum.  Krafa um mikil afköst, mikill hraði og langir sprettir, tæma líkamlega orkuforða þeirra og sennilega var þeim ekki gefinn nægur tími milli sýningarkaflanna til þeir gætu endurhlaðið sig. Gleðin hverfur við orkuskortinn og hross fara á framhlutann til að hlífa sér.  Við framhlutasígið tapast mýktin, léttleikinn og hreinleiki taktsins svo nokkur atriði séu nefnd sem hrífa mig sem hestamann.  Hér er við hæfi að spyrja. Hvaða viðbótarupplýsingar um gæði gangtegundar fást eftir fyrstu hundrað metrana?  Duga ekki í mörgum tilfellum skemmri vegalengdir og færri skipti?

Yfirlitssýning kynbótahrossa er hugsuð sem tæikifæri til að gera betur þar sem sóknarfæri er til hækkunar og var það vel hugsað að mínu mati við tilurð yfirlitskaflans í árdaga.  Margir höfðu erindi sem erfiði og hækkuðu einkunnir fyrir riðnar gangtegundir og líka fyrir vilja og geðslag og fegurð í reið.  Í tilraunum til að hækka einkunn fyrir hratt stökk sást greinilega frá mér séð sparkandi fætur knapa taktfast í síðu hestsins, pískur í heldur hægari takti slegið áberandi í bóg hestsins og fylgt eftir með nikkandi taumábendingum í sama takti og pískurinn allan sprettinn.  Hestar hækkuðu í nokkrum tilfellum bæði fyrir stökk og vilja.  Oft á tíðum virkuðu svipaðir reiðmennskutilburðir til hækkunar á skeiði, vilja og fegurð í reið eftir ítrekaðar og misjafnlega lukkaðar tilraunir. Þarf svona einbeitta tilburði af knapans hálfu til auka greinanleg gæði eiginleikanna og þar með að hækka einkunnir?  Eða er einkunnahækkunin í raun innistæðulaus vegna þess hvernign hækkunin er fengin? Er þessi reiðtækni það sem við viljum sjá og kynna sem það besta af því besta af þeim bestu?  Munum að sjónvarpsbirtingarmyndin út um allan heim er að svona á að gera hlutina því þetta virkar til hækkunnar – reiðmennskan hlýtur því að vera til fyrirmyndar. Mér fannst knapar beita hestana almennt meira harðræði í yfirlitinu  en fordómnum. 

Ég tel mig hafa séð nokkuð marga hesta í háum tölum fyrir tölt sem voru mest allan dómtímann ýmist bundnir eða stirðir nema hvort tveggja væri..  Þeir voru hágengir og skrefstórir en skorti jafnframt léttleika og mýkt í tölthreyfinguna.  Gangtegundin var frá mínum bæjardyrum séð líkari skeiði en tölti þegar tölt var sýnt.  Munum að þeir sem sýndu hestana eru taldir þeir bestu á landinu við þessa iðju.  Hvernig gengur þá hinum almenna hestamanni að ríða þessa gerð af tölti svo að það sé hreint og mjúkt?  Fyrir hverja erum við hrossræktendur að rækta hross?

Ég tel mig einnig  hafa séð nokkuð marga hesta í háum tölum fyrir skeið sem voru mest allan skeiðmetinn sprettinn án svifs.  En svifið er það atriðið sem skilur á milli skeiðs og tölts, ekki fjórtakturinn.  Hins vegar minnkar svifið eftir því sem skeiðið verður fjórtaktaðra og fyrir margan er erfitt að greina svifið þegar það er orðið lítið og hesturinn í fjórtaktaðra lagi.  Það var allt að því skondið að sjá þá hesta sem voru eins og á skeiði þegar þeir áttu að tölta og síðan vera nánast á tölti þegar þeir áttu að skeiða. Eigum við að hafa þetta svona?

 

Með kveðju, Magnús Lárusson, M.Ag.

Hrossaræktandi

www.urvalshestar.is

Á myndinni er Kiljan frá Holtsmúla, knapi er Hulda Gústafsdóttir

 


Til Baka