Frumtamningar

Úrvalshestar ehf bjóða upp á frumtamningu hrossa og er vinnuferlið í samráði við óskir viðskiptavinarins og eftir framförum hestsins.

Á þessari síðu má lesa um hugmyndafræði okkar og vinnubrögð við frumtamningar hrossa. Við nýtum okkur sérstaklega mikið þekkingu úr námssálarfræði og atferlismótun við þessa vinnu, því tamning snýst um að móta hegðun hestsins og kenna honum nýja hluti. Smátt og smátt þróast svo vinnan með hestinn meira út í líkamlegar æfingar til að gera hestinn leiknari í að framkvæma það sem hann er beðinn um.

Frumtamningaferlið er markviss vinna með tryppið sem byrjar á því að öðlast traust þess og virðingu. Sambandið milli manns og hests verður að vera óttalaust af beggja hálfu til þess að kennsla frá mannsins hálfu, og nám frá hestsins hálfu geti farið fram. Segja má að hraði tamningarinnar fari mikið eftir því hversu langan tíma tekur að öðlast þetta traust, því að fyrr er ekki hægt að byrja að kenna hestinum svo vel sé.

Sum hross hafa aldrei verið meðhöndluð áður en frumtamningin byrjar, og eru oft á tíðum afar ör og óttaslegin þegar þau allt í einu eru tekin og tamningin hefst. Þá tekur við tímafrekur kafli meðan verið er að vinna traust þeirra. Þau hross sem ekki eru eins hrædd geta fyrr farið að einbeita sér að því að læra í staðinn fyrir að hugsa stöðugt um flótta. Það er alger regla að þau hross sem hafa verið meðhöndluð sem tryppi temjast mun hraðar heldur en önnur hross. Hér getið þið lesið um fortamningar og unghrossamat sem við bjóðum upp á fyrir hross yngri en fjögurra vetra gömul.

Aðferðirnar sem við notum við að ná trausti og virðingu hestsins byggjast á því að lesa viðbrögð hestsins, og vinna með hann samkvæmt þeim. Undirstöðuatriði er að hesturinn sé óhræddur og þess vegna er mikilvægt að vinna fyrir utan persónulegt svæði hans.  Persónulegt svæði hestsins er afmarkað í kringum hann af ímyndaðri línu og er þetta svæði stærra eftir því sem að hesturinn er hræddari. Á meðan að maðurinn treður sér ekki inn í þetta svæði þá er hesturinn ekki hræddur við hann.  Með því að breyta viðhorfi hestsins til betri vegar gagnvart manninum minnkar svæðið innan þessarar línu.

Til þess að geta gert það er byrjað á að reka hestinn inn í stíu og setja á hann múl. Með því að nálgast hann með þeim hætti að honum er stýrt, en ekki reynt að stöðva hann má leitast við að hafa lágmarks hræðsluvekjandi áhrif á hann. Þegar múllinn er kominn á er hægt að tengja í hann langan taum og reka svo hestinn inn á afmarkað svæði sem er nógu stórt til þess að hesturinn geti fært sig þannig að hann nái manninum út úr persónulega svæðinu sínu. Þá er hann ekki hræddur lengur og fær nægt sjálfstraust til að geta byrjað að læra.

Nú hefst hið eiginlega nám, þar sem tamningamaðurinn notar verðlaun til að kenna hestinum að hlýða taum. Þegar hesturinn byrjar að læra þá minnkar hræðsla hans við manninn. Persónulega svæðið minnkar eftir því sem meira er unnið með hestinn, en mishratt. Hraðinn fer bæði eftir upplagi hestsins sem og fyrri meðhöndlun.

Eftir því sem persónulega svæðið minnkar er hægt að kenna hestinum fleiri hluti og þegar hann er orðinn óhræddur við snertingu mannsins (persónulega svæðið horfið) er hægt að byrja að kenna honum allt það sem felur í sér snertingu, eins og t.d. að bera beisli og hnakk og að lokum að setjast á bak.

Auðvitað eru líka til hestar sem eru ekki örir og hræddir og eru þeir þá meðhöndlaðir á annan hátt. Við byrjum á því að meta skapgerð hestsins og þá er kominn leiðarvísir fyrir vinnuna sem framundan er. Myndin hér fyrir neðan sýnir á skýran hátt hvernig skapgerð hesta getur verið.

MYND AF SKAPGERÐARKORTI

Hestar sem eru staðsettir í miðju þessa skapgerðarkorts eru fljótastir að læra því að hugarfar þeirra er þannig stemmt, að þeir eru nógu rólegir til að einbeita sér, en samt nógu örir til að svara ábendingum fljótt. Þeir eru einnig nógu kjarkaðir til að þora að gera það sem þeir eru beðnir um, en ekki svo fífldjarfir að þeir ögri knapanum.

Aðferðir til að koma hestum út frá jöðrum kortsins inn að miðju eru að sjálfsögðu mismunandi allt eftir því hvar hesturinn er. Þannig er unnið á örvandi hátt með rólega hestinn, æfingar stuttar, fjölbreyttar og snarpar á meðan að öri hesturinn þarf yfirvegun og langar, rólegar æfingar. Kjarkur er yfirleitt af hinu góða í hesti, en getur farið út í fífldirfsku sé hann allt of mikill. Þá er hesturinn stundum svo öruggur með sig að erfitt getur verið að hafa það á hreinu hver er leiðtoginn. Hinn gullni meðalvegur er því einnig bestur hvað varðar kjarkinn rétt eins og örleikann og rólegheitin.

Það sem við leggjum áherslu á að kenna hestum sem koma til okkar í frumtamningu er eftirfarandi:

  • Að viðurkenna manninn sem leiðtoga
  • Að láta ná sér
  • Að bera beisli
  • Að bera hnakk
  • Að hleypa manni á og af baki
  • Að standa bundinn
  • Að vera járnaður
  • Að vera riðið á feti, brokki og stökki
  • Að vera teymdur við hlið gangandi og á hesti

Athugið að afar misjafnt er hversu hratt tryppi læra þessi atriði, það fer eftir lengd tamningarinnar og því hversu hratt hesturinn lærir.

Þjálfun hests hefst að lokinni tamningu og miðar hún að því að kenna honum rétta líkamsbeitingu á þeim gangtegundum sem hann býr yfir. Unnið er að því að auka þol, styrk, samhæfni, léttleika og liðleika hestsins á kerfisbundin hátt svo hæfileikar hans á gangtegundum fái notið sín til frambúðar.

Við endurþjálfun hrossa eða hrossa, sem þarf að laga, er leitast við að finna rót vandans og laga hann. Til að geta lagað vandann er mikilvægt að finna út hvort hann stafar af ótta hests, virðingarleysi hests gagnvart manninum, líkamlegum ástæðum, af því hestur kann eða skilur ekki það sem hann er beðinn að gera eða blanda af fleiri en einni ástæðu. Þar á eftir er unnið að því að koma hestinum á “rétta” braut og síðan þjáflun á venjubundinn hátt.