Þjálfun og tamningar

Þjálfunaráætlun er unnin í samráði við eiganda hestsins með hliðsjón af framtíðar hlutverki hans. Þannig er lögð áhersla á að undirbúa hestinn sem best fyrir það sem honum er ætlað að gera, hvort sem það er að vera reiðhestur, sýningarhestur, smalahestur eða eitthvað annað.

Þjálfun hests í framhaldi af frumtamningunni miðar að því að kenna honum rétta líkamsbeitingu á þeim gangtegundum sem hann býr yfir. Unnið er að því að auka þol, styrk, samhæfni, léttleika og liðleika hestsins á markvissan hátt svo hæfileikar hans á gangtegundum fái notið sín til fullnustu.

Við leggjum áherslu á rétta líkamsbeitingu út frá lífeðlisfræði hestsins, þ.e. samvinnu vöðva, beina og liðamóta, og fáum þar af leiðandi hest sem vinnur í réttri vinnustellingu og er í réttri reisingu og höfuðburði og eins miklum fótaburði og hæfileikar hans leyfa.

Endurþjálfun hrossa með sérstök vandamál
Við endurþjálfun hrossa með sérstök vandamál, er byrjað á að finna rót vandans og laga hann. Til að geta lagað vandann er mikilvægt að finna út af hverju hann stafar, en ástæðurnar geta verið eftirfarandi:

  • Hesturinn er hræddur
  • Hesturinn viðurkennir ekki manninn sem leiðtoga sinn
  • Hesturinn skilur ekki það sem hann er beðinn um
  • Líkamlegar orsakir valda því að hesturinn getur ekki framkvæmt það sem hann er beðinn um.

Þjálfunarplanið tekur þá mið af þeim verkefnum sem fyrir liggja, en hrædda hestinn þarf að fylla af sjálfstrausti á meðan að sá sem ekki skilur þarf ítarlegri útskýringar og kennslu í þeim verkefnum sem hann á að framkvæma. Hestur sem heldur að hann sé æðri manninum í þeirra sambandi þarf að fá að vita að svoleiðis á það ekki að vera, en sé um líkamlegar orsakir að ræða þarf samráð við sérfræðinga eins og t.d. dýralækna, járningamenn eða hestanuddara. Ef ekkert finnst að eru það e.t.v. hæfileikar hestsins sem eru takmarkandi þáttur í framförum hestsins.