18.09.2014 | Fréttir

Hvað er góð reiðmennska?

Félagasamtök hestamanna, s.s. LH, FHB og FT, segja í markmiðum sínum, með mismunandi orðalagi þó, að þeirra markmið sé að bæta reiðmennsku á íslenskum hestum.  Gæði reiðmennsku, góðrar eða slæmrar, eiga að koma, beint eða óbeint, fram í einkunn fyrir frammistöðu knapa í hestaíþróttum og frammistöðu hests í gæðingakeppni og kynbótasýningum samanber  leiðbeiningar um einkunnagjafir í hverri grein.  Til að hnykkja enn betur á mikilvægi góðrar reiðmennsku þá hafa félög og félagasamtök á Íslandi oft veitt verðlaun þeim sem þykja skara fram úr fyrir reiðmennsku á stórmótum s.s Lands-,  Fjórðungs-,  Íslandsmótum, og Meistaradeildinni svo nokkur mót séu upptalin. FEIF er engin undantekning á þessari viðleitni og veitir sérstök verðlaun „feather price“ fyrir framúrskarandi reiðmennsku á heimsmeistaramótum. 

Þessar aðgerðir hafa ekki þótt nógu árangursríkar að margra mati í að bæta reiðmennsku almennt.  Þess vegna var ákveðið fyrir nokkrum árum að tilstuðlan FEIF að gefa til kynna með uppréttingu plús- eða mínuspjalds með einkunn viðkomandi hvers konar reiðmennska var viðhöfð þegar ástæða þætti til athugasemda.  Hugmyndin var og er að mínu mati frábær.  Viðkomandi reiðmaður, sem og áhorfendur, fengu þá strax að sjá hvort sýnd reiðmennska væri eftirbreytni verð eða ekki.  Þannig skyldi ég það á þeim tíma og geri enn. 

Eftir eitt ár eða svo í prufu þá var hætt við þessa hugmynd.  Ekki vegna þess að hugmyndin væri ekki lengur góð og nauðsynleg heldur vegna þess að dómurum hestaíþrótta greindi á hvernig ætti að nota spjöldin.  Eða með öðrum orðum, okkur hestaíþróttadómurum greindi á um hvað væri góð reiðmennska og hvað væri slæm reiðmennska.  Í staðinn fyrir að koma okkur saman um endapunktana á reiðmennskuskalanum þá hentum við hugmyndinni.  Hins vegar ætti það að vera okkur hestamönnum umhugsunarefni að það skuli enn vera þannig að það sem sumir sjái sem gott sjá aðrir sem slæmt og það er svo eftir áratuga kennslu og mikið fjármagn í að bæta reiðmennskuna. Hvers vegna getum við ekki komið okkur saman um hvað er góð reiðmennska?  Er sú vinna ekki nauðsynleg til að við getum haldið áfam að bæta okkur sem reiðmenn – í reiðmenn sem hafa velferð hestins að leiðarljósi í hvívetna.

 

Magnús Lárusson, M.Ag.

 

 

 


Til Baka