Markmið þjálfunar

Þjálfunaráætlun er unnin í samráði við eiganda hestsins með hliðsjón af framtíðar hlutverki hans. Þannig er lögð áhersla á að undirbúa hestinn sem best fyrir það sem honum er ætlað að gera, hvort sem það er að vera reiðhestur, sýningarhestur, smalahestur eða eitthvað annað.
Þjálfun hests í framhaldi af frumtamningunni miðar að því að kenna honum rétta líkamsbeitingu á þeim gangtegundum sem hann býr yfir. Unnið er að því að auka þol, styrk, samhæfni, léttleika og liðleika hestsins á markvissan hátt svo hæfileikar hans á gangtegundum fái notið sín til fullnustu.

Við leggjum áherslu á rétta líkamsbeitingu út frá líffæra- og lífeðlisfræði hestsins, þ.e. samvinnu vöðva, beina og liðamóta, og fáum þar af leiðandi hest sem vinnur í réttri vinnustellingu og er í réttri reisingu og höfuðburði og eins miklum fótaburði og hæfileikar hans leyfa.

Markmið þjálfunar
Þjálfun gangtegunda

Þjálfun gangtegunda

Jafnframt því að kenna hestinum að hreyfa sig í réttri líkamsstöðu, þjálfum við allar gangtegundir hestsins eftir því sem líkamleg geta hans leyfir.  Við þjálfum allar gangtegundir fyrst á milliferð, því sá hraði er auðveldastur fyrir hestinn.  Svo gengur þjálfunin mikið út á að teygja getu hestins á hraða í báðar áttir, þ.e. hraðar og hægar, á feti, brokki, stökki og tölti.  Flestum hestum þykir brokkið auðveldast og því er það riðið mest fyrst og að sjálfsögðu fet og stökk.   Þegar hesturinn er orðinn nógu sterkur, og búinn að læra nóg til þess að hann kunni vel á beislið og aðrar ábendingar, þá er gangsetning á tölt næst á dagskrá.  Skeiðþjálfun er einstaklingsbundin þar sem þetta er yfirferðargangtegund og krefst mikils andlegs og líkamlegs styrks.  Þess vegna hefst þjálfun á skeiði yfirleitt ekki fyrr en hesturinn er kominn vel af stað á öðrum gangtegundum.

Að sjálfsögðu förum við eftir óskum eigenda um áherslur í þjálfun, og beygjum okkar þjálfunarplan samkvæmt óskum eigenda eftir því sem geta hestsins leyfir.