Úrvalshestar bjóða hrossin þín velkomin í fóðrun í Holtsmúla 

Úrvalshestar bjóða upp á langtíma fóðrun hrossa. Við leggjum metnað okkar í að hrossunum líði vel, hafi nóg að bíta og brenna og séu hæfilega mörg saman í passlega stórum beitarhólfum. Verð er mismunandi eftir því hvort um stóðhesta, fylfullar hryssur eða geldhross er að ræða. Einnig er verð á fóðrun til styttri tíma samningsatriði hverju sinni. Úrvalshestar geta farið fram á tveggja daga fyrirvara til að smala hrossum til afhendingar, og lengri fyrirvara á sumrin þegar hross eru fjarri heimahögum.

Öll verð eru gefin upp með virðisaukaskatti nema að annað sé tekið fram.


Framkvæmd fóðrunar
Folaldshryssur þurfa gott eftirlit í kringum köstun

Framkvæmd fóðrunar

Við skiptum hrossum upp í hópa eftir fóðurþörfum, og er algengast að saman séu hryssur með sín folöld, og veturgömul tryppi.  Í öðrum hópi eru öll eldri hross nema stóðhestar sem að sjálfsögðu eru sér.   Stóðhestarnir eru hafðir í mjög stóru og grasgefnu hólfi sem er umkringt skurðum með rafmagnsgirðingu á bökkum þeirra.   Þannig er tryggt að alltaf sé góð fjarlægð í önnur hross.

Folaldshryssurnar eru hér heima í Holtsmúla allan ársins hring, og tökum við þær alveg heim undir bæ þegar þær nálgast köstun til að auðvelt sé að fylgjast náið með þeim.  Aukaeftirlit í kringum köstun felur aðallega í sér að sérstaklega er fylgst með að hryssan kasti áfallalaust og losni við hildir.  Folaldið er einnig undir eftirliti og fylgst vel með því að það komist á spena og allt líti eðlilega út.  Allar hryssur kasta í hólfum þar sem eru engir skurðir eða annað sem gæti reynst ungum folöldum hættulegt.

Fóðrun geldhrossa

Hross sem eru eldri en 1 vetra eru fóðruð á heyi hér heima á veturna, en fara í sumarbyrjun eða þegar komin er næg beit í víðáttumikla úthaga sem eru afar grasgefnir.  Í þessum högum skiptast á mólendi, mýrar og melar.  Einnig eru þarna brattar brekkur sem stæla hrossin og almennt fjölbreytt landslag sem bætir kjark og dug.   Okkur finnst þetta umhverfi í uppeldinu spila stóran og jákvæðan þátt í vexti og þroska hrossanna, bæði andlegum og líkamlegum.  Þarna eru þau án truflunar þar til í október, en þá er þeim smalað heim svo þau séu komin í heimahagana áður en veður gerast válynd.  Vinsamlega athugið, að fari hrossið í sumarhaga þá getur tekið tíma að ná í það, því við smölum alla jafna aðeins einu sinni heim í ágúst og svo aftur í lok október.  Ef eigandi óskar þess að nálgast hross sitt á öðrum tíma er ekkert mál að halda hrossinu eftir heima í Holtsmúla.

Fóðrun geldhrossa
Hrossin þjóta í sumarhaga, frelsinu fegin
Heyinu velt út til að allir komist að

Innifalið í fóðrunargjaldi er hey og grasbeit eftir þörfum, og regluleg ormalyfsgjöf, hófsnyrting og eftirlit.  Hryssur sem eru fylfullar eru á hærra gjaldi en geldhryssur, og skýrist það m.a. af mun meiri fóðurþörf hryssunnar og mikils eftirlits í kringum köstun.   Einungis er rukkað fast gjald upp á 15.000 + vsk fyrir folald árið sem það fæðist.  Athugið að við tökum ekki við hrossum nema að þau séu fortamin, þ.e. hægt sé að mýla þau og meðhöndla.   Ef það hefur ekki verið gert þá bjóðum við þá þjónustu.  Upplýsingar um tamningu má sjá hér.

Verð á fóðrun

Stóðhestar:

  • Fæddir 2019 kr. 22.320 á mánuði 
  • Fæddir 2020 kr. 21.080 á mánuði
  • Fæddir 2021 kr. 19.840 á mánuði 

Alla jafna tökum við ekki í fóðrun stóðhesta sem eru fæddir fyrr.

Fylfullar hryssur:  186.000 á ári

Gjald per folald á fæðingarárinu:  18.600

Önnur hross:  148.800 á ári

Öll verð eru gefin upp með virðisaukaskatti

Verð á fóðrun
Ærslafullir stóðhestar í leik

Athugið að varðandi fóðrun allra hrossa er ekki innifalinn sá dýralækniskostnaður sem ekki telst vera þáttur í reglubundinni umhirðu hrossins, svo sem vegna slysa eða veikinda. Eigandi ber allan dýralæknakostnað sem kann að verða af þeim orsökum. Úrvalshestar áskilja sér rétt til að breyta þessari verðskrá fyrirvaralaust vegna breytinga á verði aðfanga.