Meðhöndlun og mat á unghrossum

Meðhöndlun og mat á unghrossum

Magnús Lárusson hefur sérhæft sig í og verið í farabroddi við að bjóða upp á og kenna mat og meðhöndlun á unghrossum á aldrinum 1 – 4 vetra. Unghrossamat hefur tvíþætt markmið, annars vegar að temja svolítið hrossin, og hins vegar að leggja mat á útlit, ganglag og geðslag hrossanna með hliðsjón af ræktunarmarkmiði eigandans.

Unghrossamatið veitir eiganda hrossins mikilvægar upplýsingar um það hvort og hvernig hrossið virðist ætla að uppfylla kröfur um gæði og er þá hægt að taka ákvarðanir um framtíð hrossins byggt á útkomu matsins.

Fortamning

Hrossin eru tamin á svipaðan hátt og eldri hross. Áhersla er lögð á að losa hrossið við hræðslu gagnvart manninum, en byggja upp virðingu og þegar það er komið í höfn er því kennt að teymast og fleira eftir því hvað þau eru gömul. Eftirfarandi listi sýnir hvað reynslan hefur kennt okkur að sé gott að kenna hrossunum á viðeigandi aldri:

Veturgömul tryppi: Þessi tryppi þurfa fyrst og fremst að treysta manninum og virða hann. Þeim er einnig kennt að teymast og hlýða vel taumtaki í allar áttir. Þessi hross ættu að láta ná sér hvar sem er, og kunna að bera stallmúl og hlýða taum. Ef traustið og virðingin er til staðar er auðvelt að taka upp fætur og því er öll umhirða hrossanna orðin auðveld.

Tveggja vetra tryppi: Auk þess að rifja upp það sem þau lærðu árið áður, bætist við að bera beisli og hnakkur er settur á og girt en ekki hert mikið að. Tryppið á að teymast auðveldlega á beisli með hnakkinn á.

Þriggja vetra tryppi: Eftir upprifjun frá fyrra ári er sest í hnakkinn. Það sem skilur að fortamninguna og frumtamninguna sjálfa, er að í fortamningu er aðeins verið að kenna hestinum, líkamleg þjálfun er ekki á dagskrá fyrr en seinna. Þannig er rétt sest í hnakkinn, og ef tryppið er stórt og sterkt þá er hægt að æfa aðeins að ríða til vinstri og hægri á litlu svæði eins og t.d. inni í tveggja hesta stíu. Ef tryppið er lítið og ekki þroskað borgar sig að bíða með alla reið. Mikilvægt er að knapinn sem fer á bak sé léttur og fimur svo að byrðin sé auðveld fyrir hrossið.

Hross sem hafa fengið þennan forskóla eru afar vel andlega tilbúin fyrir frumtamninguna þegar hún hefst. Þá þarf ekki að kenna hrossinu mikið til að hægt sé að leggja á og fara í fyrsta reiðtúr. Um leið og tryppið fer að losa þriggja vetra aldurinn, þá fer það að verða tilbúið undir fyrstu reið, en héðan í frá ræður andlegur og líkamlegur þroski því hversu hratt má fara í tamningunni

Stór kostur við fortamninguna er sá að hrossin læra mjög hratt á þessum aldri, og sé farið eftir þessari uppskrift hér að ofan, ætti ekki að þurfa að vinna oftar með hvert tryppi heldur en 3 – 5 skipti í 10 – 20 mínútur í senn árlega.

Annar kostur er sá að þetta geta flestir gert sjálfir, og þó að þeir vilji ekki frumtemja hrossin sín sjálfir, þá geta allir sparað sér umtalsverðar fjárhæðir með því að undirbúa hrossið á þennan hátt.

Mat á unghrossum

Að meta hrossin sem yngst bæði í útliti, hreyfingum og sérstaklega geðslagi getur gefið góðar vísbendingar til eigenda þeirra um það hvort að þau muni henta í þau hlutverk sem þeim er ætlað seinna meir.

Mat á geðslagi
Mat á geðslagi fer fram í fortamningunni sjálfri, en þá kynnist tamningamaðurinn hrossinu og getur lagt mat á kjark eða kjarkleysi annars vegar og hins vegar það hvort að tryppið sé rólegt eða ört. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig tryppið er í geðslagi í eðli sínu ef að nota á hrossið í ræktun, þó að fortamningin nái að breyta því til betri vegar. Því að auðvitað er það eðlisgeðslagið sem skilar sér, en ekki tamningin. Annað sem að tamningamaðurinn leggur mat á er hversu hratt tryppið lærir.

Mat á útliti
Hægt er spá fyrir um útlit hrossa þegar þau hafa náð fullum þroska strax og þau fæðast. Mismunandi eiginleikar hafa þó mismunandi öryggi, sumt breytist mikið, en annað minna. Það er mikið vitað um það hvað breytist og hvernig það breytist, og því getur þekking á þessum fræðum hjálpað til við að spá fyrir um útlit hrossins þegar það hefur náð fullum þroska.

Mat á hreyfingum
Það er margt að skoða í sambandi við það hvernig tryppi hreyfir sig, og getur svona skoðun gefið verulega góða mynd af því hvað er í vændum við fullan þroska. Horft er á hvaða gangtegundir hesturinn notar, og fótaburð og skrefstærð. Svo er það ekki minna mikilvægt að gera sér grein fyrir eðli hreyfingarinnar, sem felst fyrst og fremst í liðleika og léttleika og þar á meðal því hvort að hestinum er eiginlegt að vera á framhlutanum eða ekki.