11.01.2017 | Fréttir

Samtal hestamanna

Málþing um stöðu og úrbætur á keppnismálum okkar hestamanna var haldið í annað sinn á tæpum tveim árum og nú í Fáksheimilinu 5.janúar síðastliðinn.  FT hafði frumkvæðið og sá um framkvæmdina á þessu samtali hestamanna um málefnið og hafi það þökk fyrir sinn þátt í þessu þarfa verki.  Margt var um manninn og eftir skörulega framsögn valinkunnra fulltrúa dómarafélaganna, tveggja þekktra keppnisknapa og eins hrossaræktanda var orðið gefið laust.  Fundarmenn tjáðu sig einarðlega um það sem þeim lá á hjarta og það var eitt sem stóð upp úr - misvanhæfir dómarar. Langar umræður fóru í að úthugsa aðgerðir sem lutu að því að skilja hafrana frá sauðunum. Annað var ekki rætt á tæplega þriggja klukkustunda löngu samtali hestamanna um stöðu keppnismála og úrbætur þar á.  Vanhæfni dómara var líka aðalumræðuefnið á fyrra málþinginu um stöðu og úrbætur á keppnismálum – sama staða og áður er niðurstaðan.

Hæfur dómari að mati fundarmanna þarf að kunna dómskalann, vera heiðarlegur, góður í mannlegum samskiptum og vera faglega sterkur. Þessum atriðum er ég sammála.  Ég trúi því jafnframt að færa megi gild rök fyrir því að sömu kvaðir megi og jafnvel eigi að leggja á sérhvern knapa svo hann teljist hæfur keppandi.  En aftur að dómurum. Mér fannst og finnst nú ekki mikið mál að læra dómskalann til að geta verið nokkuð vel viðræðuhæfur við flesta sem málið varða og viti hvar eigi að leita í leiðbeiningum um dóma og önnur þau störf sem koma að keppninni ef þarf.  Mér finnst einnig að flestir sem ég þekki af stétt hestaíþróttadómara kunni dómskalann a.m.k. jafnvel og ég. 

Ég trúi því ekki að nokkur af mínum kollegum fari í dómskúrinn til að vera óheiðarlegur.  Hins vegar trúi ég því allir séu að framkvæma dómstörfin eins vel og þeir geta og ég hef aldrei orðið var við annað. Aftur á móti get ég vel skilið þá mannlegu hegðun að vera ekki alveg viss í sinni sök með einkunn fyrir slaka sýningu hjá stórknapanum á góða og reynda keppnishestinum ef reynsla eða æfing við dæmingu er lítil eins og er hjá öllum byrjendum.  Afleiðing þessa getur verið sú að einhverjum áhorfenda finnist stórknapinn hafi verið heppinn með einkunnina.  Vissan eykst með aukinni reynslu í dómstörfum og hún er ekki keypt úti í búð eða lærð af bókum.  Allir dómarar hafa þurft að dæma mikið til að öðlast reynslu og komast í æfingu.

Að vera góður í mannlegum samskiptum er alltaf gott hvar sem er í lífinu.  En ég get því miður ekki séð að hestaíþróttadómarar þurfi að vera betri í þeim umfram meðaljónin.  Við dómarar erum mest allan tímann einungis í samskiptum við ritara eða aðstoðarmann okkar og krefjast þau ekki flókinna aðgerða í mannlegum samskiptum.  Hins vegar gerist það, þó sjaldan, að keppandi eða aðstandandi hans eða hests sé í því andlega ástandi eftir sýningu að dómari þurfi að vera sálfræðingur til að komast af við hlutaðeigandi ef um samskipti þar á milli eiga sér stað.  En vissulega getur það hjálpað í sumum tilfellum.  Munum að ábyrgðin á ábyrgri hegðan á ekki bara vera á herðum dómarans.    

Að vera faglega sterkur er nauðsynlegt fyrir alla dómara.  Sú þekking og þjálfun, sem þarf til að vera talinn og vera faglega sterkur dómari, er margvísleg og tekur tíma að öðlast og í raun endar aldrei.  Dómararefni taka próf til að öðlast  dómararéttindi og þurfa síðan að mæta á upprifjunarnámskeið árlega til að viðhalda réttindunum.  Dómarar eru í raun þjálfaðir í að framfylgja sameiginlegri stefnu  FEIF og sérsambandi síns lands í því hvernig hestur skal þjálfaður og sýndur.  Stefnan í keppnismálum birtist í leiðurum og tengdu efni samþykktu og útgefnu af fyrrnefndum samtökum og á þeirra ábyrgð. 

Að mínu mati er miklar gloppur í þessu samþykkta efni um keppni og keppnismál, sérstaklega efnið um dæmingu á frammistöðu á keppnisvellinum.  Íslenski leiðarinn er mun ónákvæmari en sá enski en í hann skal fara ef um vafaatriði er að ræða sbr. lög og reglur FEIF.  Enski leiðarinn notar töluvert af hugtökum, sem eru þekkt í reiðmennsku annarra þjóða. Ætla verður að þau eigi að hafa sömu merkingu innan íslandshestaheimsins og hjá þeim þjóðum sem stunda annars konar reiðmennsku.  Þegar hugtökin eru þýdd yfir á íslensku þá virðast mörg hugtökin tapa merkingu sinni.  Ástæðan fyrir tapinu er sú að mínu mati að við höfum ekki þessi hugtök skilgreind á íslensku í okkar reiðmennskutextum og - hefð.  Afleiðingin verður sú að túlkunin verður mismunandi meðal dómara og knapa. Túlkunarmunur skapar misræmi í dómum og því trúi ég að við viljum eyða.  Vilt þú það ekki líka?

Séum við sammála um að túlkunin verði að vera eins hjá öllum þá koma tvær  spurningar í viðbót.  Hver á að sjá um að kippa þessum atriðum í lag? Og hvenær verður það gert?  Að því loknu getum við fyrst vænst þess að misræmið í dómum vegna „vanhæfni“ minnki og við getum farið að snúa okkur að öðrum þáttum sem gætu bætt stöðu keppnismála hjá okkur hestamönnum.

 

Myndin sýnir samtal milli Eddu og Gyllis


Til Baka