Hrossarækt Úrvalshesta

Hrossarækt Úrvalshesta byrjaði árið 2003 þegar Magnús og Svanhildur fengu 7 folöld. Áður hafði Magnús lagt metnað sinn í að rækta hrossin á Hólum í Hjaltadal með frábærum árangri en dæmi um einstaklinga sem Magnús ræktaði þar eru Landsmótssigurvegararnir Þoka frá Hólum og Þula frá Hólum auk töltarans frábæra Blæju frá Hólum, Íslandsmeistara með meiru.

Margir fleiri framúrskarandi einstaklingar urðu til á Hólum undir umsjón Magnúsar, en hann átti eina hryssu sjálfur á þessum árum sem hann ræktaði undan, hana Kríu frá Lækjamóti. Það hefur heldur betur komið sér vel fyrir okkur því hún hefur gefið okkur margar af okkar bestu hryssum, og í dag eru fjórar Kríudætur virkar ræktunarhryssur í ræktun Úrvalshesta, sem allar eru í miklu uppáhaldi.

Markmið ræktunarinnar

Við höfum sett okkur skýrt ræktunarmarkmið og viðað að okkur hryssum til að rækta hross í samræmi við það. Við ræktum ekki neina sérstaka ættlínu, er sama hvaðan gott kemur svo framarlega sem það hefur útlit, hæfileika og geðslag sem okkur líkar. Stóðhestavalið miðast við að bæta hryssurnar miðað við ræktunarmarkmiðið og hér fyrir neðan er lýsing á því:

Útlit:
Við viljum rækta stór og myndarleg hross með mikið fax. Við leggjum mesta áherslu á hálsinn, að hann sé hátt settur á háum herðum og að hann sé þunnur, grunnur og klipinn í kverk. Langur háls er einnig mikil prýði. Samræmið er næst í röðinni þar sem mestu máli skiptir sem mest fótahæð. Einnig þykir okkur mikilvægt að hrossin séu jafnbola, sívalvaxin og hlutfallarétt. Bakið á að vera með lægsta punkt aftarlega, breitt og vöðvað og lendin löng, jöfn og öflug. Fjölbreytni í litum sækjumst við eftir komi hún ekki niður á öðrum eiginleikum.

Gangtegundir:
Gangtegundir skulu vera rúmar og hrossin hreingeng. Brokk og stökk á að vera svifmikið. Ekki skiptir máli hvort að gangtegundir séu fjórar eða fimm. Við leggjum áherslu á háan fótaburð og sem mesta skrefstærð ásamt léttleika og liðleika í hreyfingum.

Geðslag:
Við viljum að hrossin séu nálægt miðju á skapgerðarkortinu, þó mega þau vera heldur kjarkaðri og í lagi að þau séu örlítið ör. 

Ræktunarhryssur Úrvalshesta
Hryssustofninn kemur víða að, og ættirnar eru héðan og þaðan.  Það sem hryssurnar eiga hins vegar sameiginlegt er að búa yfir þeim eiginleikum í ríkum mæli sem við höfum sett okkur í ræktunarmarkmiðum okkar.  Allar hryssurnar eru tamdar og flestar sýndar í 1v, en sumar hafa ekki náð þeim árangri, þó að okkur hafi einhverra hluta vegna þótt ástæða til að rækta undan þeim.  Til dæmis eru nokkrar hryssur aðeins sýndar fyrir byggingu vegna meiðsla sem gerðu það að verkum að hæfileikadómur var ekki möguleiki, eða önnur sambærileg ástæða er fyrir því að hryssan er ekki sýnd.

Smellið hér til að skoða ræktunarhryssur Úrvalshesta

Stóðhestar í eigu Úrvalshesta
Úrvalshestar eiga hluti í nokkrum stóðhestum.  Þessir eiga það sameiginlegt að búa yfir eiginleikum sem okkur þykir mikið varið í rétt eins og ræktunarhryssurnar, og oft á tíðum festum við okkur hluti í hestum sem erfitt er að komast í til að tryggja aðgang að þeim.  Úrvalshestar eiga einnig nokkra efnilega ungfola sem bíða síns tíma, margir þeirra eru til sölu en vonandi verða einhverjir þeirra tamdir seinna í eigu félagsins.

Smellið hér til að skoða stóðhesta í eigu Úrvalshesta

Tryppin
Ávöxtur ræktunarinnar er rétt að byrja að koma í ljós hér í Holtsmúla.  Vegna ungs aldurs ræktunarinnar höfum við verið að fjölga ræktunarhryssunum með því að kaupa þær, en stöndum nú á þeim tímamótum að hryssur úr eigin ræktun ættu að fara að sjást í dómi, og ef allt gengur vel standa þær sig nógu vel til að skila sér inn í ræktunina hjá okkur.  Nokkrir stóðhestar eru einnig til í uppeldi og eins og gengur eru til tryppi frá Úrvalshestum út um allan heim sem verður spennandi að sjá hvað verður úr hjá viðskiptavinum okkar.

Smellið hér til að skoða tryppi úr ræktun Úrvalshesta