Að fá hátt fyrir fet

8. júní, 2008

Hestur er talinn feta vel þegar hann fetar meðalreistur og spennulaus, frjáls í hreyfingum, með sókn áfram í ferðastefnu, með jafna niðurkomu fóta, stígur með afturfæti vel fram fyrir framfótarspor og spyrnir sér áfram með afturfótum.  Þannig fet fær háa einkunn í kynbótadómi, fjórgangi, fimmgangi, A – flokki gæðinga, B – flokki gæðinga, ungmennaflokki, unglingaflokki og barnaflokki.  Fetið gildir minnst í kynbótadómi eða 1,5% af aðaleinkunn og því virðist margir knapar  kynbótahrossa hirða lítt um að þjálfa fet.  En þrátt fyrir það eru nokkur dæmi þess að knapar hafi getað fetað sig yfir lágmörkin inn á landsmót með því að ríða fetið vel.  Í öðrum greinum gildir fetið frá ca. 10% upp í 20% af aðaleinkunn eins og í fjórgangi.  Í sportinu hefur það sýnt sig að fet hefur úrslitaþýðingu fyrir keppnishest allt eins og aðrar gangtegundir og því reynt að þjálfa það nú orðið eins og aðrar greinar.

Algengustu gallar á feti stafa af tvennu í fari hests.  Annars vegar af því að hestur er að flýta sér og hins vegar að hestur hefur ekki tilgang með fetinu, er latur eða eins og minn lærimeistari sagði um þannig hest.  “Það sést ekki hvert þessi hestur er að fara.”  Hestur sem flýtir sér er annað hvort spenntur eða er með ókreppta lend og því á framhlutanum og trjónuna fram, er á móti taum og stirðleiki augljós.  Spenntur hestur er tíðgengur, stuttstígur, fattur í baki en stundum með eftirgjöf í hnakka sem villir mörgum áhorfandanum sýn um að rétt form eða líkamsbeiting sé á ferðinni.  Fetið getur ekki batnað fyrr en spennan fer úr huga hests.  Vert er að muna að fari fet að versna á þjálfunartímanum á þann hátt að hestur vill flýta sér með stuttum skrefum eða verða bundin þá er það merki um að spenna sé að myndast í hestinum.

Algeng sjón, þegar fet er sýnt, er að knapinn er á móti fethreyfingunni og trufar þannig fet hestsins.  Knapinn er annað hvort stífur eða hreyfir sig á annan hátt en fethreyfing hests gefur tilefni til.  Fethreyfingu hests getur hver maður séð með því að fylgjast með hreyfingum ístaða þegar hestur er teymdur á feti.

Þekkir þú fethreyfingu hests?

Með kveðju
Magnús Lárusson
Að fá hátt fyrir fet