Að gefa einkunnir í íþróttakeppni

13. janúar, 2008

Keppnisreglur í hestaíþróttum hafa a.m.k. tvenns konar markmið.  Annar vegar að meta frammistöðu knapa og hests við að framkvæma skilgreind verkefni og hins vegar að hafa áhrif á reiðmennsku knapans og þar með hvernig reiðmennsku við viljum sjá almennt í framtíðinni.  Reglurnar segja að ef reíðmennskan sé góð og sýningin sé samræmisgóð megi verðlauna knapann með því að bæta 0,5 við frammistöðuna hans.  Eins segja reglurnar að sé reiðmennska slæm eða gróf þá megi draga allt að 2,0 frá einkunn fyrir frammistöðu. 
Það er enginn leið fyrir knapa að sjá af einkunnum frá dómurum hvort hann sé lofaður eða lastaður fyrir reiðmennskuna eða hvorugt nema að reiðmennskan sé talin gróf en þá á gult spjald að fara á loft með einkunninni. Skilaboðin um gæði reiðmennskunnar þurfa að komast til knapa og áhorfenda jafnóðum eða þegar einkunn er birt annars er hætta á því að þessi áhrifamáttur á reiðmennskuna missi marks. Það mætti hugsa sér að hafa grænt spjald með einkunninni þegar hún er birt til að gefa til kynna að knapi sé verðlaunaður sérstaklega fyrir góða reiðmennsku.  Jafnframt þyrfti það að koma fram, ef knapa er refsað, hvort sem það er fyrir slæma eða grófa reiðmennsku en það er eins og áður segir aðeins gert ef reiðmennskan er talin gróf og þá með gulu spjaldi.  Hér mætti hugsa sér gult spjald ef reiðmennskan er talin slæm og rautt spjald ef hún er talin gróf.
Hver er þá munurinn á slæmri og grófri reiðmennsku gæti einhver spurt? Hann er oft óljós en til að hjálpa mér sjálfum sem dómarar þá skoða ég hvort um það sé að ræða að knapi sé að skeyta skapi sínu á hestinum eða ekki.  Ef svo er þá er um grófa reiðmennsku að ræða annars slæma.  Eins lít ég á það hvort knapinn er vanur og reyndur eða ekki.  Fyrir sams konar slæmsu í reiðmennsku hjá báðum þá mundi ég fremur meta reiðmennskuna slæma hjá þeim óvana en grófa hjá hinum.
Að verlauna og refsa til að móta hegðun, í þessu tilfelli reiðmennsku, er alþekkt aðferð.  Hér eru áhrif refsinginar mun meiri en verðlaunin þar sem heimild til frádráttar frá einkunn er 2,0 en viðbót á einkunn upp á 0,5 sem verðlaun.  Þessi munur gerir þátt refsingar mun meiri en þátt verðlaunanna og er það slæmt.  Það er slæmt vegna þess að refsingunni fylgir oft reiði og mótþrói skapast og það hvoru tveggja beinist gjarnan gegn dómurunum og tefur fyrir breytingum.  Verðlaun skapa hins vegar vellíðan sem er hvatinn til að endurtekningar. 

Hvort vilt þú verða skammaður eða fá hrós?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Myndin sýnir íþróttadómara sem verðlaunar ríkulega það sem hann er ánægður með

Að gefa einkunnir í íþróttakeppni