Er íslenski hesturinn öðruvísi?

6. janúar, 2008

Ég lærði það mjög ungur að íslenski hesturinn hefði ákveðna sérstöðu meðal hesta heimsins vegna þess að hann væri eini hesturinn í heiminum sem tölti. Gömlu jálkarnir, sem við krakkarnir fengum undir rassinn, töltu ekki heldur brokkuðu ef þeir voru ekki á feti og stökki, sem var skemmtilegast að ríða.  Við ræddum um það, reyndar bara okkar á milli, að sennilega væru Valur gamli og Brúnki gamli ekki íslenskir.
Ég eltist og lærði þá að sérstaða íslenska hestsins væri vegna þess að hann hefði bæði tölt og skeið fyrir utan hinar þrjár gangtegundirnar sem allir hestar hefðu hvort sem er.  Þetta var um það leiti sem ég byrjaði að temja sjálfur.  Flestir þeir hestar, sem ég tamdi á þessum árum, höfðu mjög takmarkaða hæfni til að vera hliðstæðir nema þá á fetferð.  Þar sem ég var ekki viss um hvort þetta stafaði af skorti á tamningahæfileikum hjá mér eða þeir væru allir skyldir Val gamla og Brúnka gamla tjáði ég mig lítið um þessa sérstöðu íslenska hestsins. 
Síðan eldist ég meira og enn þá hélt ég áfram að læra og nú hef ég lært það að hesturinn okkar er sérstakur vegna þess að hann er íslenskur – þetta kaupi ég a.m.k. þar til ekkert annað kemur í ljós. 
Mér dettur þetta í hug vegna umræðna, sem skjóta upp kollinum öðru hverju, um sérstöðu íslenska hestsins.  Hann er venjulega mærður í þessum umræðum fyrir hvé hann sé sérstakur og mikið betri en allt annað sem sést hefur á yfirborði jarðar a.m.k. varðandi gangtegundir sínar.  Í nóvember og desember voru fréttir og nokkrar umræður á hestafrettir.is um tölt og skeið í öðrum hestakynjum.  Bæði fréttirnar og umræðan um efnið báru keim af heimsku eða bara  venjulegri gleymsku.  Heimskan er vegna þess að menn vita ekki betur sbr. pistill frá 25.11.2007 um erfiðar spurningar þar sem heimska er útskýrð. Og gleymskunni má afstýra með því að rifja upp og skoða landsmótsspólur fyrri ára.  Á þeim fyrstu fara flestir hestar á því sem í dag væri ekki flokkað undir almennilegt tölt eða skeið.  Framfarir undanfarna áratugi í ræktun og þjálfun hafa breytt þessari mynd í það sem við sjáum best á stórmótum.  Færu aðrar þjóðir að einbeita sér að ræktun og þjálfun sinna hestakynja með því augnamiði að bæta fyrrgreindar gantegundir þá gæti hitnað verulega undir okkur. 
Ég er hálffeginn því að íslenski hesturinn er ekki sá eini sem hefur tölt því það eykur atvinnumöguleika mína sem farandreiðkennari.  Þau eru mörg námskeiðin á ári þar sem ég fæ hesta af öðrum hestakynjum en því íslenska til að leiðbeina fólki með tölt.   Ef hestarnir eru af viðurkenndum tölthestakynjum eins og þeim sem koma frá Suður og Norður Ameríku þá er mikil töltsemi á ferðinni.  Töltupplagið hjá þeim er yfirleitt gott; hreinn taktur, liðleiki og fjaðurmagn í hreyfingum meiri en við eigum að venjast í hreyfingum íslenska hestsins. 

Þekkir þú af eigin raun önnur ganghestakyn?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Myndin sýnir greinarhöfund á alíslenskum eðlistöltara, Eiríki frá Íslandi

Er íslenski hesturinn öðruvísi?