Hrossa- og hestasótt

26. maí, 2008

“Og hefur þú áhuga á hestum?” spurði ég unga snót sem kom með foreldrum sínum í heimsókn til að líta á framvindu tamingar á ungum hesti í þeirra eigu.  “Já, já, hún hefur það.  Hún er heltekin af hrossasótt.” svaraði móðirin að bragði fyrir táninginn dóttur sína.  Mér fannst stúlkan hreystin uppmáluð og ympraði því á því að kannski væri dóttirin með hestasótt en ekki hrossasótt og sagði. “Á því tvennu er mikill munur.  Hrossasótt er líkamlegur sjúkdómur sem stafar af stíflum í metlingarvegi þess veika og lýsir sér í miklum magaverk.  Hrossasóttin er mjög kvalafull og getur leitt til dauða þess veika ef ekkert er að gert.  Hross fá hrossasótt en menn ekki.  Auðvitað getur fólk fengið magaverk en hann er ekki kallaður hrossasótt.  Sumt fólk, eins og grennstu sýningarknapar, greina ekki mun á magaverk og bakverk, en það geri ég aftur á móti.”

“En hvað er þá hestasótt?” spurði móðirin svona meira til að fá mig til að halda mig við efnið.  “Hestasótt er andlegur sjúkdómur sem leggst á fólk á öllum aldri.  Sjúkdómurinn er ólæknandi og fer versnandi með árunum en er þó ekki banvænn.  Brjálsemin gengur í bylgjum og er oft árstíðabundin þar sem einkennin eru hvað mest á vorin og fyrripart sumars í kringum kynbótasýningar og keppni” sagði ég sjúkdómsskýrandinn og hélt áfram.  “Einkenni þessa sjúkdóms koma fram með ýmsum hætti og mig langar til að gefa þér nokkur dæmi.  Óstundvísi er eitt fyrsta einkenni sjúkdómsins sem kemur í ljós.  Sá sjúki kemur í auknum mæli of seint heim úr hesthúsinu á kvöldin og í fjölskylduboð.  Hann réttlætir ofseintið með því að það kom eitthvað upp á á síðustu stundu.  Réttlæting er sum sé annað einkenni sem kemur tiltölulega snemma í ljós á sjúkdómsferlinum en hún birtist m.a. í því að hinn sjúki hefur alltaf skýringar því afhverju hlutirnir ganga ekki upp, s.s. strangir dómarar, vont veður.  Afneitun er einnig einkenni og birtist m.a. í því að sá sjúki kemur aftur í dóm með hest, sem allir aðrir sjá að getur ekki bætt sig.  Eins erum við, sem sjúk erum, með oft tálsýnir.  Það birtist meðal annars í því að við vonumst eftir því að hlutir lagist eða breytist þrátt fyrir að það sé líffræðilega ómögulegt eins og að eyrnastaða lagist eða að afturdregin lend verði jöfn.  Þegar sjúkdómurinn er langt genginn þá verða einkennin óútreiknanleg, m.a. ráðast þeir sjúku á dómskúrana með lurkum eða standa sem þrumuský yfir dómurunum til að þeir geri nú enga vitleysu.  Birtingarmynd sjúkdómsins hestasótt er margbreytileg og árlega koma ný form hennar í ljós.”

Vissir þú að eitt einkenni sjúkdómsins hestasótt er að lesa þessa pistla mína?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Mynd:  Elli dýralæknirinn okkar á Hellu, svona er tekið á þeim sem fá HROSSASÓTT, og þeir fá oftar en ekki bót meina sinna.  Ert þú  með hana, eða bara HESTASÓTT?

Hrossa- og hestasótt