Mér er málið skylt

31. desember, 2007

DVD diskur með nafninu 9,5 -10 fyrir hæfileika og undirtitlinum Ræktunarmarkmið íslenska hestsins kom út fyrir jólin. Hann er unninn í samráði við Félag hrossabænda af plúsfilm og er bæði á íslensku og ensku.  Sagt er utan á framhlið hulsturs að þetta sé fræðandi mynd um hæfileika og gangtegundir íslenska hestsins og Biblía brekkudómarans. Hugmyndin að þessum diski er lofsverð og löngu tímabært að gefa myndrænt efni um hvert skal stefnt með ræktun íslenska hestsins. Þakkir þeim til handa sem gerðu diskinn að veruleika. 

Diskurinn skiptist í þrjá kafla og verður sá fyrsti megin efni þessa pistils. Í fyrsta kaflanum er hverjum eiginleika fyrir sig gerð skil á þann hátt að lýsing á einkunninni 9,5 -10 er birt og lesin bæði á íslensku og ensku. Þar á eftir eru tekin nokkur mynddæmi um kynbótahross þegar þau fengu fyrrgreindar einkunnir fyrir viðkomandi eiginleika. Á þessan hátt eru allir eiginleikar teknir. 

Lýsing á einkunnunum 9,5 – 10 er tekinn beint upp úr dómskalanum sem notaður er til að dæma íslensk kynbótahross og það er gert út um allan heim.  Þessi dómskali var saminn fyrir tæpum tuttugu árum af Kristni Hugasyni, Víkingi Gunnarssyni og undirrituðum og þess vegna er mér málið skylt.  Þegar lýsingarnar á fyrrgreindum einkunnum eru skoðaðar þá sést að oftast eru þær réttar sem betur fer.  Í annan stað sést að þær eru ónákvæmar eins og þegar sagt er að hraði á gangtegund þurfi að vera frábær eða einstakur til að fá hæstu einkunn.  Þeir, sem þurfa að fræðast og lesa því textann, geta ekki áttað sig á því hvort hraðinn eigi að vera mikill eða lítill eða eitthvað annað.  Í þessum tilfellum væri skýrara að nota mikil ferð svo dæmi sé tekið.  Að síðustu þá eru lýsingarnar beinlínis rangar eins og þegar sagt er að hratt stökk eigi að vera þrítakta til að geta fengið hæstu einkunn fyrir stökk. Öll stökkdæmin sýna fjórtakta stökk þegar stokkið er hratt sem er eðlilegt því annað er ekki hægt.

Það er eðlilegt að endurskoða dómskalann með reglulegu millibili svo mikilvægt tæki sem hann er og uppfæra í ljósi nýrra þekkingar til að gera hann skýrari og fræðandi.  Ef rangfærslur eru til staðar eða óskýrleiki þá er hætta á að trúverðugleiki dómskalans minnki og dómanna líka. 

Við skoðun mynddæmanna þá sést að reiðmennskan er breytileg milli knapanna. Það er fróðlegt og gaman að skoða hvernig þeir leysa sín verkefni.  Einn ber þó af þegar riðið er hægt stökk. Það er ekki hægt að gera betur en gert er þarna á þeim tveim hestum sem umræddur knapi ríður.

Hefur þú skoðað þennan disk? Ef ekki drífðu þig þá til þess!

Með kveðju
Magnús Lárusson

Myndin sýnir Magnús með eina helstu von sína um að uppfylla ræktunarmarkmiðið sitt, Svölu sem er dóttir Kríu frá Lækjamóti og Stála frá Kjarri

Mér er málið skylt