Ónýtt brokk?

21. janúar, 2008

“Þetta brokk í hestinum er ónýtt því það er algerlega ónothæft til að byggja hestinn upp líkamlega eins og það er.” sagði Morten Thomsen, danskur dressúrreiðmaður og Ólympíufari Dana í dressúr, á menntaráðstefnu FEIF um síðustu helgi. Hann var einn af fjórum hestamönnum sem lýstu gæðum gagntegunda fjögurra íslenskra hesta hver út frá sínu sviði.  Hestunum, einum í einu, var riðið nokkra hringi á sömu gangtegnund og matsnefndin gaf sitt álit eftir hverja gangtengund hjá hverjum hesti. Hinir í dómnefndinni voru alþjóðlegir FEIF dómarar í sporti og kynbótum auk þekkts hestamanns í náttúrulegri hestamennsku.  Morten mat brokkið einnig ónothæft hjá hinum þrem hestunum. Alþjóðlegu dómararnir dæmdu brokkið í hestunum hver á sínum dómskala og niðurstaðan var sú að brokkið væri frá því að vera fyrir neðan meðal brokk upp í gott brokk bæði út frá skala sportsins og kynbóta.

Við mat á brokki er gott að brjóta það niður í gæði þess frá náttúrunnarhendi og þjálfunarstig hests þegar hann brokkar auk reiðmennsku knapans þegar hann ríður brokkið.  Undir gæði brokks flokkast; s.s. taktur, svif, fótaburður og skrefstærð. Þjálfunarstig hests segir til um hvernig hestur beitir sér á viðkomand gangtegund, s.s. hvort burður sé í lend og baki eða einkenni um misstyrk sjáist.  Gæði reiðmennskunnar fara eftir því hvort knapi er með viðeigandi ábendingar til að auðvelda hesti að vera i jafnvægi á brokkinu eða ekki.

Frammistaða ráðstefnuhestanna á brokki var þversniðið af því sem sést á flestum mótum hér á landi.  Það sem einkenndi brokkið hjá þeim öllum var að afturparturinn var óvirkur, þ.e. lend var ekki í burði og heldur ekki bak.  Það leiddi svo til ójafnvægis á brokkinu, taktgallar urðu áberandi sérstaklega í beygjum, svif varð minna en ella, hestarnir voru alltaf að flýta sér því þeir voru meira eða minna á framhlutanum, höfuðburður var ójafn, hestarnir voru ýmist framstæðir eða á bak við beislið. Það er ekki undarlegt að dómur Mortens væri á fyrrgreindum nótum því hestarnir brokkuðu eins og skriðsundmaður, sem er lamaður fyrir neðan mitti, mundi synda eins og einn ráðstefnugesta komst að orði.  Hins vegar var augljóst að hestarnir voru með mismunandi skrefstæð og fótaburð á brokkinu.

Morten á heiður skilið fyrir hreinskilni sína og kjark í því að segja eins og honum bjó í brjósti.  Það hefði verið auðvelt að skjóta sér á bak við þá staðreynd að hann þekkir íslenska reiðmennsku lítið og svara í austur þegar spurt var í vestur eins og sönnum diplómat sæmir við aðstæður sem þessar.

Sérð þú hvort hestur er í burði í lend eða baki þegar hann brokkar?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Á myndinni er Kyndill Gustsson frá Hóli 2 vetra á brokki, bara spurning hernig brokki?

Ónýtt brokk?