Ónýtur hestur

12. maí, 2008

“Magnús!  Hesturinn er ónýtur.  Þú hlýtur að sjá það sjálfur.” sagði eigandi hestsins við mig argur og andstuttur. “Hvað áttu við?” spurði ég eigandann óöruggur með mig þar sem ég stóð og hélt í ónýta hestinn eftir að hafa sýnt eigandanum skemmdirnar.  “Viljinn er farinn! Hesturinn er orðinn latur! Reisingin er farinn! Hesturinn hengir haus!” kom í gusum frá matsmanni skemmda og eiganda hests.  “Hesturinn er ekki lengur hræddur og spenntur.  Ganið er horfið.  Ég get riðið honum hvert sem ég vil hérna inni í reiðskemmunni og á þeim hraða sem ég vil án nokkurra vandræða á slökum taum.” reyndi ég að benda eiganda ónýta hestsins á á milli gusa. “Magnús!  Sérðu ekki að hesturinn er ónýtur?  Hann lufsast um reiðskemmuna á hægu brokki og í meðalfótaburði.  Hann kæmist ekki fyrir halta belju á þessu stökki hvað þá meira.” romsaði eigandinn út úr sér í einni bunu sem endaði í andþurrð.  “Og svo viltu ekki ríða honum tölt núna því hann er ekki tilbúinn.” sagði viðskiptavinurinn og reyndi að herma eftir mér. 

“Magnús!  Ég á fola sem ég þarf að biðja þig að athuga hvort þú getir komið einhverju tauti við.” sagði röddin í símanum við mig mánuði fyrr en fyrir mörgum árum síðan. “Vinnumaðurinn er orðinn hræddur við hann og ég hef sjálfur engann tíma fyrir folann núna.” hélt röddin áfram. “Hvernig lýsir þetta sér? spurði ég.  “Folinn er viljugur en er að kippast við þegar honum er riðið. Hann fer stundum svolítið hratt í kippunum en stráksi hefur nú tollað á að mestu leiti en er orðinn hræddur því kippunum hefur farið fjölgandi og þeir að verða lengri í hvert sinn.  Folinn er mikið reistur og farinn að stíga aðeins í tölt þannig að ég held að það sé þess virði að leggja í hann einhverja vinnu.” kom sem svar.  Við sammæltumst síðan um að folinn kæmi og ég prufaði hann í mánuð en þá kæmi eigandinn til að leggja mat á árangurin sem lýst var í upphafi pistils.

Það var vont að hlusta á eigandann.  En ég tók mark á hans umvöndunum, sem ég sé eftir enn þann dag í dag, og næstu daga eftir umvöndunina þá reyndi ég að ríða folanum eins og hann lagði upp með til að laga mínar skemmdir.  Viku síðar þá hringdi ég í hann og greindi frá því að folinn væri orðinn eins og hann var þegar ég tók við honum.  Ég hefði dottið af honum nokkrum sinnum og gæti ekki haldið áfram með hann á þessum forsendum og hann yrði að taka folann.  Eigandinn greindi mér frá því hálfu ári síðar að hann hefði fellt folann því folinn hefði verðið klikkaður í hausnum.

Hvernig er ónýtur hestur?

Með kveðju
Magnús Lárusson

Mynd:  Skyldi þessi fararskjóti vera undir stjórn?  Pistilshöfundur með dóttur sinni í Skrapatungurétt
Ónýtur hestur