Útgeislun

17. júní, 2008

“Hesturinn hefur enga útgeislun!” sagði viðmælandi minn og einn af stórknöpum landsins.  Hann var að lýsa stóðhesti, sem ég var að velta fyrir mér að nota, með fyrrgreinum orðum. Mér fannst gæta ákveðinnar mótsagnar hjá vini mínum í raddblæ hans og orðavali.  Raddblæinn túlkaði ég þannig að það væri lítið varið í hestinn því það örlaði á vandlætingu í röddinni en hins vegar taldi ég mig skilja kost þess að hafa enga útgeilsun þar sem alþekkt er að sum útgeislun frá sólu er okkur mönnum skaðleg og því óæskileg.  Og vegna meintar mótsagnar var ég ekki viss um hvað hann meinti og því hváði ég.

“Veist þú ekki hvað er útgeislun.  Og þú sem ert kynbótadómari!” sagði hann og lést vera hissa.  “Ég er nú að heyra í fyrsta sinn þetta orð notað yfir hest” svaraði ég “og veit og skil ekki hvaða merking er lögð í orðið.” 

“Það er verið að lýsa framgöngu hestsins í reið.” útskýrði hann fyrir mér. “Hvaða áhrif hann hefur á þann sem á horfir.  Við höfum notað orðin; fasmikill, skörulegur, fara fallega, vera flottur í reið, vera geðveikur, vera sóðalegur, hvert á fætur öðru.  Þetta eru gamaldags orð sem eru einfaldlega ekki lengur kúl.” útskýrði minn maður fyrir mér. “Við þurfum ný orð með reglulegu millibili til að lýsa framgöngunni.  Ný orð hljóma betur en þau gömlu því svolítil óvissa og freskleiki fylgja þeim meðan þau eru ný.  Þú verður það líka með því að nota þau og verður frekar inn.“ 

“Ég get nú ekki séð að þetta orð sé neitt betra en hin í því að skilja hvernig framgöngu hests sé hátt.” andmælti ég og bætti við að ég hefði heyrt um daginn að það væri ekki lengur inn að vera kúl.
 
Ert þú kúl í þinni útgeislun? 

Með kveðju,
Magnús Lárusson



Útgeislun