25.03.2016 | Pistlar

Stórsýning sunnlenskra hestamanna 2016

Mér fannst gaman að sýningunni í heild sinni í skítkaldri reiðhöllinni og hafið þökk fyrir sýninguna þið sem komuð að henni með einum eða öðrum hætti.  Mér fannst mest gaman að sjá atriðið sem vakti mesta lukku hjá yngstu kynslóðinni – kerruaksturinn trúi ég að hafi skapað spennandi endurminningar hjá þeim og því meiri líkur á að þetta unga fólk komi aftur til að hafa gaman.  Við þurfum að koma á framfæri og skapa meiri breidd í hestamennskuna því við þurfum nýtt og ungt fólk inn í hestamennskuna og hvers vegna ekki að byrja á þeim yngstu.

Annað atriði sem mér fannst skemmtilegt og jafnframt hjartnæmt var að sjá atriðið „Höfðingar“.  Það sýndi okkur á óyggjandi hátt að það er hægt að nota og njóta gæða hestsins langt fram eftir aldri hans – hann þarf ekki að vera einnota ef við förum vel með hann og gerum sanngjarnar kröfur til hans alla tíð.  

Önnur atriði sem mér þótti verulega gaman að sjá voru þau sem voru skipulögð fyrirfram og hestar undir stjórn hvað varðaði stefnu og hraða.  Að þeim atriðum uppfylltum þá eru allar líkur á því að hesturinn sé a.m.k. í þokkalegu jafnvægi og riðin gangtegund sé hrein og aðlaðandi á að horfa.  Mest aðlaðandi atriðin að mínu mati voru frá Syðri – Fljótum, Gangmyllunni og Dalakútunum á görpunum Ómi og Straumi.

Önnur atriði voru flest sveipuð hefðbundnum reiðhallarsýningarbúningi.  Hraðinn meiri en hrossin réðu almennt við og reiðstefnan óljós.  Mjög góð hross að upplagi voru í flestum þessum atriðum en flöttust út og nutu sín ekki að mínu mati.

Hljóðkerfið í höllinni er einstakt í sinni röð. Það heyrist mjög hátt í því en varla í nokkurt skipti orðaskil og hvað þá heldur unnt að greina hvað þulir segðu a.m.k. þar sem ég sat.  Einfaldur og skilmerkilegur pési með dagskránni bjargaði því að ég gat fylgst með því sem fram fór á gólfinu.

                                                                      Magnús Lárusson M.Ag.

 

Bettina ekill að heilla ungu kynslóðina í hléi


Til Baka